138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:41]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að ræða þetta mál aðeins betur við hv. þm. Pétur Blöndal. Þetta snýst um það að veita almenningi meira val, að veita almenningi val um það hvernig raðað er á lista almennt. Þetta snýr svolítið að því sem hv. þm. Þráinn Bertelsson kom inn á líka um flokksvaldið. Þetta snýst um það að minnka ægivald stjórnmálaflokka yfir því með hvaða hætti lýðræðið er framkvæmt á Íslandi. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að hann telur að lýðræðið eigi að fara fram eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill að það fari fram. Þetta er einmitt til höfuðs þessari hugsun. Stjórnmálaflokkarnir eiga ekki að ráða því hvernig lýðræðið er framkvæmt á Íslandi. Þessar áhyggjur um að prófkjörin færist inn á kjördag eru skiljanlegar, en þegar málið er hugsað til hlítar er rétt að benda á að stjórnmálaflokkar setja sér þegar reglur um prófkjör, t.d. hámarksupphæð sem talið er að menn skuli eyða í peningum í prófkjöri. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það í þessu frumvarpi að stjórnmálaflokkar haldi ekki áfram að setja sér sjálfir reglur í kjöri sem fer fram samkvæmt persónukosningum. Flokkarnir munu sjálfir tefla fram listanum og þeir geta mælst til þess til kjósenda með hvaða hætti þeir telja æskilegt að listinn verði kosinn. Þeir geta sett sér alls konar reglur sjálfir um kosninguna innan síns flokks, en flokkarnir sjálfir eiga ekki að ráða vali almennings í kosningum.