138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:10]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að biðja hv. þingmann forláts, ég var bara af minni alkunnu hógværð að reyna að svara spurningu hans sem beint var til mín varðandi það hvað hefði valdið klofningi og deilum í hinum ýmsu hreyfingum hér á þinginu í vetur. Þetta er mín söguskoðun, verandi sagnfræðingur og hafa kynnt mér þessi mál (Gripið fram í.) nokkuð vel. Ég er ekki eingöngu að vísa til þess sem gerðist í Borgarahreyfingunni og síðar Hreyfingunni — þetta á við um ýmsa aðra stjórnmálaflokka í gegnum tíðina og hægt er að nefna mörg dæmi um það. Hv. þingmaður nefndi hér Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég ætla nú ekki einu sinni að hætta mér út í það að ræða það mál hér í stuttu andsvari.

En kjarninn í því sem ég er að segja er þetta: Ef hópur fólks eða manna sem fer í framboð undir merkjum tiltekinnar stefnu, tiltekins flokks og tiltekinnar hugmyndafræði hljóta kjósendur þess flokks og þessara einstaklinga að þurfa að geta treyst því að sú stefna sem sett er fram af hálfu hreyfingarinnar eða flokksins — að allir þeir einstaklingar sem þar eru á bak við styðji þá stefnu. Kjósendur verða að geta treyst því vegna þess að þeir eru jú að kjósa flokka, þeir eru að kjósa hugmyndafræði, þeir eru að kjósa stefnu. Fólkið er í raun og veru bara verkfærin til þess að framfylgja hugmyndafræðinni og stefnunni. Það er það sem ég er að draga fram hér í þessari umræðu. Ef grunnurinn er ekki nógu klár og ef menn eru ekki með nógu mikinn sameiginlegan skilning á því hvar þeir standa þá fer illa.