138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim þingmönnum og öðrum þeim sem hafa miklar áhyggjur af því hvernig verið er að fara með atvinnulífið og atvinnuuppbyggingu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þá sérstaklega stóriðjufyrirtæki, þann helsta vaxtarbrodd sem margir telja að við eigum í nýtingu náttúruauðlinda um frekari uppbyggingu stórra atvinnutækifæra. Þar liggi viðspyrnan fyrir okkar samfélag.

Áhyggjur mínar liggja þó að mestu í því hvað skilningsleysi hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokka er mikið þegar kemur að þörfum atvinnulífsins og þeim grundvallaratriðum sem þurfa að vera til staðar til að byggja hér upp. Það endurspeglast m.a. í nýlegri blaðagrein aðstoðarmanns fjármálaráðherra þar sem hann segir m.a. að skammtíma- og langtímaáhrif orku- og stóriðjuframkvæmda séu ekki mikil á mannaflaþörf og efnahagslífi í þessu landi.

Þetta segir hann þrátt fyrir að í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar segi að hreinn þjóðhagslegur ábati af stóriðjuframkvæmdum í Helguvík og Straumsvík sé mjög mikill og geti numið allt að 95 milljörðum á ári miðað við núvirði. Hann segir einnig að langtímaáhrif á atvinnulíf séu engin vegna þess að þessar framkvæmdir ryðji öðru atvinnulífi burtu. Stóriðjuframkvæmdir séu því lítilvirk tæki til að komast út úr efnahagslægð og vafasamt sé að efnahagsleg rök mæli með frekari uppbyggingu hennar. Ég hef aldrei heyrt annað eins bull og er ég þó ýmsu vanur úr þessari átt.

Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar fyrir iðnaðarráðuneytið tekur af allan vafa í þessum efnum. Hér er aftur verið að etja atvinnugreinum saman, eitthvað sem við höfum orðið vitni að, að einhver atvinnustarfsemi ryðji annarri burtu en efli hana ekki. Þetta höfum við séð varðandi hvalveiðarnar og í fleiri greinum. Ég vil því spyrja hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson hvort hann sé sammála þessum fullyrðingum aðstoðarmanns fjármálaráðherra og hvort þessi sjónarmið eigi yfir höfuð upp á pallborðið í þingflokki hans.