138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[13:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson vakti hérna athygli á ágætri umræðu sem átti sér stað í gær um persónukjör, sem ég held að sé góð leið og líkast til sú besta til að finna lýðræðislega og sanngjarna leið til að velja á framboðslista flokkanna. Mín skoðun er sú að sú útfærsla sem við eigum að taka upp sé að fólk geti valið þingmenn og frambjóðendur þvert á flokkana og kjósi svo einn flokkinn að lokum. En útfærslan er eftir.

En bara til að taka af allan vafa um það er í samstarfslýsingu og stjórnarsáttmála flokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar, frá því í vor, lagt fram frumvarp um persónukjör og haft samráð við sveitarfélög um útfærslu þess í tengslum við komandi sveitarstjórnarkosningar. Málið er síðan komið fram og til þingsins. Það er allsherjarnefndar og síðan Alþingis og jafnvel fleiri þingnefnda að útfæra hvaða leið við ætlum að fara í persónukjöri.

Mín skoðun er sú að við eigum að opna þetta alveg og leyfa fólki að kjósa þvert á flokka. Aðrir hafa hugmyndir um að stilla fram óröðuðum lista sem fólk velji úr á einum lista o.s.frv. Útfærslan á þessu máli er, eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði, í höndum þingsins enda er þetta mál sem eru almennt mjög skiptar skoðanir um innan og á milli flokka, eins og gengur og gerist með mörg þau mál sem lúta að lýðræðismálum. Útfærslan er meginmálið og hún er eftir. Málið er komið fram, (BÁ: Hvað með stjórnlagaþing?) það er stjórnarfrumvarp, það er á vegum ríkisstjórnarinnar og hér komið fram í annað sinn.

Rétt um uppbygginguna í orkuiðnaði sem rætt var um áðan. Orkuiðnaðurinn er, eins og margoft hefur komið fram, forsenda þess að við förum hratt og vel út úr samdrætti og kreppu. Þar eigum við að sjálfsögðu að líta til margra þátta og rétt til að minnast þess sem vel er gert og vel gengur þar var undirritaður fjárfestingarsamningur í iðnaðarráðuneytinu fyrir örfáum dögum sem snýr að gagnaveri á vallarsvæðinu, sem núna heitir Ásbrú. Fjölmargt annað jákvætt og gott er verið að gera þar, t.d. er varðar fjölbreyttar (Forseti hringir.) nýfjárfestingar í orkuiðnaði.