138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[13:56]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að lesa upp úr afar skynsamlegri yfirlýsingu og ályktun stjórnar VG og hygg að frú forseti ætti að veita afbrigði þannig að hv. þingmaður geti lesið alla yfirlýsinguna.

Við höfum gert athugasemdir fyrst og fremst vegna tveggja þátta, einkum þó vegna jafnréttismálanna. Við höfum náð þeim árangri, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og reyndar Samfylkingin líka, og borið gæfu til að stilla upp lista þar sem ríkir jafnræði kynjanna. Við höfum áhyggjur af því að það kunni að raskast í persónukjöri. (Gripið fram í.) Konur hafa átt erfiðara uppdráttar í prófkjörum. Við höfum áhyggjur af því, við viljum hugsa það og við viljum að þingið taki lýðræðislega, skynsamlega og þingræðislega afstöðu til þess, allir þingmenn, vegna þess að það snertir alla flokka. Ég hef talið það óeðlilegt að tveir flokkar taki einir og sér með alræðisvaldi, þ.e. ríkisstjórn þessara flokka, ákvörðun um hvernig kosningum skuli hagað án aðkomu þingsins og ég greiði atkvæði um það fyrir fram á þingflokksfundi áður en það hefur fengið meðferð á þingi.

Ég verð líka að vekja athygli á því að flokkar eru klofnir í þessu máli, það eru ekki einsleit sjónarmið í öllum flokkum sem hér eru starfandi á þinginu, það er bara þannig. Það gerist líka annað sem veldur mér áhyggjum og ég er hugsi yfir, það er að færa prófkjörin inn í kosningar.

Svo vildi ég nefna í þriðja lagi varðandi sveitarstjórnarkosningarnar að ég hef sagt að af praktískum ástæðum muni það aldrei ná fram að ganga. Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið prófkjör í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar núna í janúar, ef ég man rétt, þannig að við verðum aldrei búin að koma þessu máli á koppinn fyrir þann tíma. Að grípa svo fram fyrir hendur flokks sem hefur með lýðræðislegum hætti ákveðið framboð sitt, (Forseti hringir.) tel ég ekki eðlilegt.