138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[14:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spyr mig hvað ríkisstjórnin hafi gert til að treysta atvinnu- og efnahagslíf í landinu. Ríkisstjórnin hefur í fyrsta lagi gengið frá samningum við AGS. Það hefur leitt til þess að orðið hafa verulegar breytingar á afstöðu erlendra fjármálamarkaða til Íslands. Við sjáum það birtast í því að þeir eru aftur farnir að lána fjármagn til framkvæmda á Íslandi. Það hefur t.d. birst í því að Orkuveita Reykjavíkur hefur nú fengið lán sem gerir henni kleift að endurfjármagna Hellisheiðarvirkjun og ráðast í framkvæmd Hverahlíðarvirkjunar. (Gripið fram í.)

Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis gerbreytt umhverfissprota fyrirtækjanna með tímasettum sex aðgerðum. Hin síðasta var rædd í gær á þingi sem var frumvarp sem er þess eðlis að þegar allar þessar aðgerðir eru komnar til framkvæmda segir greinin sjálf að hvergi í heiminum sé rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja jafngott og hér á Íslandi. (Gripið fram í.) Sömuleiðis hefur ríkisstjórnin sett peninga í að auka markaðssókn ferðaþjónustunnar og er að gerbreyta skipulagi hennar með þeim hætti að hún er nú í uppsveiflu á sama tíma og efnahagslægðin í heiminum gerir það að verkum að ferðaþjónusta við Miðjarðarhafið er nánast hrunin eða í mikilli lægð.

Ríkisstjórnin mun á morgun eða á föstudaginn samþykkja framkvæmdapakka í ríkisstjórninni sem leiðir til þess að störfum mun fjölga verulega. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis haft forgöngu um, í samvinnu við lífeyrissjóðina, að innan skamms verður hafist handa við byggingu nýs hátæknisjúkrahúss. Hún hefur sömuleiðis komist að samkomulagi — er að ljúka því — við lífeyrissjóðina um að ráðast í Búðarhálsvirkjun. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis tryggt að fjármögnun vegna Suðvesturlínu er trygg fyrir næsta ár og svo mætti lengi telja.

Ég sem hér stend hef t.d. átt þátt í því að hér var samþykktur fjárfestingarsamningur vegna Helguvíkur og á persónulegum nótum stefni ég að því að auka töluvert fjölda þeirra starfa sem sinna þýðingum hér í landi. [Hlátur í þingsal.]