138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get borið vitni um að ötullega var unnið að því á síðasta kjörtímabili undir forustu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra að undirbúa þetta verkefni, um störf án staðsetningar, þrátt fyrir að margir flækjufætur reyndu að bregða fæti fyrir þessa vinnu. Hins vegar hefur núverandi ríkisstjórn tekið upp alveg nýja stefnu sem er ekki stefna um störf án staðsetningar heldur störf með staðsetningu.

Það sem verið er að gera núna með fjárlagafrumvarpinu er einfaldlega það að verið er að leggja drög að því að færa verkefni sem áður voru unnin úti á landi á höfuðborgarsvæðið. Í gær ræddum við lengi dags um hugmyndir hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna um að veikja héraðsdómstólana úti um landið. Þannig sjáum við hvarvetna, hvar sem borið er niður, að ríkisstjórnin vinnur mjög ötullega að þessu verkefni sínu, störf með staðsetningu, með því að veikja stofnanir úti á landi þannig að hægt sé að flytja verkefnin suður.