138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það ber að þakka þá fyrirspurn sem hér er borin upp, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum vikum um mögulega starfsemi ríkisins vítt og breitt um landið. Sporin hræða óneitanlega í þessum efnum og ég minni t.d. á Vatnajökulsþjóðgarð þegar auglýst voru störf þar. Þá var gert að skilyrði að skrifstofumaður sem ráðinn var til þeirrar ágætu stofnunar átti að vera búsettur í Skuggasundi af öllum stöðum í veröldinni og ekki var gefinn kostur á neinu öðru þar. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni í umræðunni áðan um svokallað dómstólafrumvarp. Hvernig í ósköpunum er hægt að segja að menn hvar sem er á landinu geti starfað við héraðsdóminn í Reykjavík? Horfum þá til sýslumannanna og löggæslunnar. Á að hringja í lögreglumanninn á Reykjanesi þegar útkall er á Þórshöfn? Nei, því miður, ég kemst ekki, ég er upptekinn við útkall á Reykjanesi. Er hugsunin sú að menn eigi að geta sinnt þessum störfum hvaðan sem er af landinu? Það er útilokað. Það þarf ákveðna handstýringu í þessum efnum.