138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Reynslusaga úr utanríkisráðuneytinu. Fyrr á þessu ári auglýsti ég störf án staðsetningar sem átti að vinna á vegum utanríkisráðuneytisins. Þá hafði atvinnuleysi brostið á, ekki síst á suðvesturhorninu. Það komu fram mótmæli gegn þessu frá fólki sem taldi að verið væri að sniðganga það og brjóta lög og stjórnarskrá með því að auglýsa þau á landsbyggðinni. Það varð til þess að sú auglýsing var afturkölluð og það var lagalegur rökstuðningur sem þessu fylgdi. Þetta finnst mér vera dálítið mikilvægt og merkilegt.

Þegar við hófumst handa um að reyna að ryðja störfum án staðsetningar braut vorum við að hugsa um landsbyggðina. Í dag er staðan þannig að það er minna atvinnuleysi þar en á suðvesturhorninu. Það gerir það að verkum að hér á suðvesturhorninu er fjöldi fólks sem telur sig hafa sama og jafnvel siðferðislega meira tilkall til þessara starfa en fólk á landsbyggðinni. Ég lenti í þessu og varð að afturkalla auglýsinguna.