138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

aðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkó.

50. mál
[14:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ef það fer svo að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu er það rétt hjá hv. þingmanni að þá munu þessir samningar niður falla en á móti kemur að Íslendingar munu þá ganga inn í þá fríverslunarsamninga sem ESB hefur gert við önnur ríki. EFTA hefur yfirleitt fylgt í slóð ESB, ekki að öllu leyti en að nánast öllu leyti.

Að því er varðar þau tvö ríki sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega hefur ESB í gildi góðan fríverslunarsamning við Mexíkó og hefur hafið viðræður við Kanada líka. Sjálfur þekki ég samninginn við Kanada ákaflega vel. Hann var ein 12 ár í undirbúningi. Ég átti sæti í utanríkismálanefnd þegar undirbúningur hans hófst. Ég stýrði fyrstu fundum utanríkismálanefndar því að þetta hófst með samskiptum milli þinganna tveggja og það voru mér mikil vonbrigði hversu seint það gekk að koma honum á. Það gerðist þó að lokum. Ég er sammála hv. þingmönnum um að þarna eru mikil tækifæri. Ég hef sjálfur nýlega átt viðræður við utanríkisráðherra Kanada einmitt um möguleikana á því að nýta þennan samning betur, sömuleiðis við ættmenni okkar í Vesturheimi þar sem ég var einmitt á þeirra slóðum í sumar og menn töldu að þarna væru ákveðnir möguleikar. Ég er alveg sannfærður um að í framtíðinni muni þeir opnast þegar bæði Kanadamenn og Íslendingar gera sér grein fyrir þessu. Þarna eru t.d. ákveðnir sterkir möguleikar á sviði landbúnaðar fyrir einstakar greinar landbúnaðarins, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns að því er ég hygg.

Við höfum ekki tekið neina meðvitaða ákvörðun um að segja okkur úr samskiptum við einn eða neinn þó að við kynnum að ganga inn í Evrópusambandið. Þvert á móti tel ég að það mundi styrkja stöðu okkar að mörgu leyti. Ég ítreka að auðvitað viljum við hafa góð samskipti við Vesturheim og Norður-Ameríku. (Forseti hringir.) Vöruútflutningur þangað 2008 var 5,5% en hann var 12 sinnum meiri til ESB-ríkjanna. Þar eru gríðarlegir hagsmunir.