138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gæsla hagsmuna Íslands í Norðurhöfum.

51. mál
[14:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin og ræðu hans í þessu sambandi og tek undir orð hans um alla þá möguleika sem þarna eru. Í því ljósi langar mig að velta þeim möguleika upp við ráðherrann hvort ekki sé líklegra til árangurs ef við, ásamt þeim grannþjóðum sem hafa hagsmuna að gæta, tökum höndum saman með þeim þjóðum og reynum að verjast öðrum sem sækja þarna inn á, tökum höndum saman með þeim um að nýta þá hagsmuni sem þarna eru, hvort ekki sé líklegra fyrir velgengni íslenskrar þjóðar að hún standi sjálfstæð þjóð í samstarfi með þessum ríkjum, Færeyingum, Grænlendingum, Norðmönnum, Kanadamönnum og Rússum og svo Dönum að því leyti sem þeir snúa að utanríkisstarfsemi Grænlendinga og Færeyinga, en öðrum fjarlægum þjóðum sem hafa ekkert tilkall til þessara svæða, til að mynda í Mið-, Austur- eða Suður-Evrópu. Er ekki heppilegra fyrir íslenska þjóð ef við stöndum saman um þetta?

Mig langar einnig að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort ekki sé æskilegt og líklegt eða skynsamlegt að við ættum að stefna að því að setja upp sameiginlega björgunar- og eftirlitsstofnun sem hefði þá aðsetur á Íslandi? Ég tek undir orð hans um að engin ein þjóð getur vaktað allt þetta svæði, það er mjög dýrt og það þarf að standa sameiginlega að því af öllum þeim ríkjum sem þar koma að máli.

Að lokum langar mig aðeins að nefna það að í ræðu Ingibjargar Sólrúnar, fyrrverandi utanríkisráðherra, er talað um að undirbúningur sé hafinn að heilsteyptri stefnumótun íslenskra stjórnvalda í málefnum norðurslóða í ráðuneytinu og mig langar aðeins að heyra hæstv. ráðherra segja frá því hvar sú vinna stendur. Þetta er frá árinu 2007.