138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gæsla hagsmuna Íslands í Norðurhöfum.

51. mál
[14:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Að því er varðar síðustu spurningu hv. þingmanns hefur komið út sérstök skýrsla sem var fyrsti afrakstur þeirrar vinnu sem forveri minn setti af stað. Þar er að finna drögin að stefnumótun Íslands gagnvart norðurslóðum. Ég sagði síðan í ræðu minni, sem var stefna íslensku ríkisstjórnarinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú fyrir skömmu, að norðurslóðir yrðu eitt helsta áherslusvið íslenskrar utanríkisstefnu á næstu árum.

Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður sagði um nauðsyn á auknu samstarfi okkar við Grænlendinga og Færeyinga. Ég hef sjálfur tekið það upp, að frumkvæði mínu ræddi ég þetta við lögmann Færeyinga þegar hann var hér í heimsókn. Ég reifaði þann möguleika að við tækjum aftur upp þann sið sem Íslendingar höfðu ásamt þessum þjóðum, að helstu forustumenn, þ.e. forsætisráðherra Íslands, formaður landstjórnarinnar í Grænlandi og færeyski lögmaðurinn, hittust a.m.k. reglulega einu sinni á ári til að þétta saman hagsmuni sína á þessu sviði. Rök mín fyrir því að endurupptaka þetta voru einmitt þau að á næstu árum er líklegt að þessir miklu möguleikar á norðurslóðum og líka vaxandi ógnir gerðu það að verkum að við þyrftum að standa saman um þetta.

Ég ræddi þetta sömuleiðis á fundi með Vestnorræna ráðinu í Stokkhólmi á meðan á Norðurlandaráðsþinginu stóð í síðustu viku og tók þetta einnig upp á fundi með Kuupik Kleist, hinum nýja formanni landstjórnarinnar. Honum hefur verið boðið til Íslands á nýju ári, m.a. til þess að ræða mál af þessum toga, þannig að ég er alveg sammála hv. þingmanni.

Ég er líka sammála því sem kom hér fram hjá hv. þm. Ásmundi Daðasyni að í Stoltenbergsskýrslunni er að finna mjög marga merkilega hluti sem við eigum að reyna að vinna með samstarfsþjóðum okkar á Norðurlöndunum vegna þess að engin ein þessara þjóða getur staðið undir þeirri vöktun og því eftirliti og hagsmunagæslu (Forseti hringir.) sem við munum þurfa, allar þjóðirnar, að standa í á næstu árum til þess að verjast vaxandi ásælni eins og hv. þingmaður talaði um.