138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

undirbúningur aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

85. mál
[15:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Um miðjan júlí samþykkti Alþingi, reyndar með naumum meiri hluta atkvæða, að fela ríkisstjórninni að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Síðan eru liðnir þrír og hálfur mánuður og það sem frést hefur af undirbúningi viðræðnanna eru fyrst og fremst atriði sem varða spurningalista ESB til íslenskra stjórnvalda og svör við spurningunum. Minna hefur farið fyrir öðrum þáttum sem varða þennan undirbúning.

Það var raunar greint frá því í gær, held ég, hver það er af embættismönnum utanríkisráðuneytisins sem verður formaður samninganefndar Íslands en það hefur ekkert komið fram um það hverjir aðrir muni skipa samninganefndina eða vera í forsvari fyrir einstakar undirnefndir sem ég hygg að muni gegna mikilvægu hlutverki.

Það hefur heldur ekki komið fram neitt opinberlega um vinnu við mótum samningsmarkmiða fyrir Íslands hönd í þessum viðræðum en eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum er almennt gert ráð fyrir því að viðræðurnar muni hefjast fljótlega upp úr áramótum þannig að tíminn styttist.

Ég get ekki litið öðruvísi á, hæstv. forseti, en svo að þessi dráttur á mikilvægum undirbúningi fyrir aðildarviðræðurnar sé töluvert á skjön við yfirlýsingar og ummæli hæstv. utanríkisráðherra sem hefur ítrekað lýst því yfir í fjölmiðlum að undanförnu að hann vonist til og reikni með að Ísland verði tekið inn í Evrópusambandið á einhverjum methraða. Það hefur mátt skilja ummæli hæstv. utanríkisráðherra með þeim hætti. Það má líka nefna í þessu sambandi, og það er að hluta til tilefni spurninga minna hér, að hæstv. ráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að allt umsóknarferlið verði afar opið og gegnsætt og að Alþingi verði haft náið með í ráðum í sambandi við alla þætti undirbúningsins. Þess vegna vil ég, hæstv. forseti, beina eftirfarandi spurningum til hæstv. utanríkisráðherra:

1. Hvað líður undirbúningi samningsmarkmiða fyrir Íslands hönd vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið?

2. Hvað líður skipun samninganefndar Íslands vegna viðræðnanna?