138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn um samgöngumiðstöð í Reykjavík. Spurningunni er í raun og veru hægt að svara með einu jái og seinni hlutinn er: Sem fyrst. Þar með væri svarið búið en ég ætla ekki að gera það, ég ætla að nota tækifærið og fara aðeins í gegnum þetta.

Það er svo sérstakt að þegar maður fær svona fyrirspurn og fer aðeins að kíkja í gögnin sín og önnur gömul gögn sem hafa verið skrifuð og sett fram um Reykjavíkurflugvöll er umræðan nánast eins í dag og hún var fyrir rúmum 60 árum. (BJJ: Já.) Uppistaðan að núverandi flugstöð, ef kalla má flugstöð, er upp úr seinni heimsstyrjöldinni og að mig minnir var hluti af henni fluttur frá Vestmannaeyjum til að byggja upp flugstöð hér. Það eru sem sagt um 60 ár. Þá var í flugtímaritum rætt um hvort færa ætti innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar, hvort finna ætti nýjan stað fyrir flugvöll í nágrenni Reykjavíkur eða hvort Reykjavíkurflugvöllur yrði þar sem hann er en í breyttri mynd.

Virðulegi forseti. Þetta er 63 ár aftur í tímann. Í dag, árið 2009, erum við nánast á sama stað þrátt fyrir margt samkomulagið, miklar og góðar skýrslur og annað slíkt, eins og t.d. úttektina um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, sem er mjög merkilegt og gott rit. (Gripið fram í.) Ef maður fer aftur til 2007 fóru þar um 430.000 farþegar og hafði fjöldinn aukist um 150.000 farþega frá árinu 2001. Flugstöðin er 1.250 fermetrar. Til samanburðar fóru um flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar hún var tekin í notkun suður í Keflavík árið 1987 um 500.000 farþegar, 70.000 fleiri en um Reykjavíkurflugvöll árið 2007. Sú bygging var þá 22.000 fermetrar, u.þ.b. 20 sinnum stærri en við Reykjavíkurflugvöll.

Hv. þingmaður spyr hvort ég ætli að beita mér fyrir því að ný samgöngumiðstöð rísi við Reykjavíkurflugvöll. Já, ég ætla að gera það. Og síðan er spurt hvenær vænta megi að það verði. Ég segi bara: Sem fyrst.

Viðræður hafa lengi verið í gangi um þetta milli samgönguráðuneytisins og samgönguyfirvalda og Reykjavíkurborgar. Það er ágætissamvinna þarna á milli, gott samráð og góð vinna þótt hún taki langan tíma. Það vil ég taka skýrt fram, alveg sama hver meiri hlutinn hefur verið hefur þetta verið í góðri vinnu. Miðað við það samkomulag sem við undirrituðum í apríl, ég og núverandi borgarstjóri, förum við vonandi núna að ljúka því máli og fá niðurstöðu í það.

Í stöðugleikasáttmálanum og fylgigögnum með honum er samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll nefnd sem eitt dæmið um einkaframkvæmd. Ég hef stundum sagt að e.t.v. getum við þakkað fyrir að ekki sé búið að byggja samgöngumiðstöð vegna þess að það er gott að geta byggt hana núna á þessum erfiðleikatímum þar sem vantar verkefni og framkvæmdir fyrir iðnaðarmenn. En þá þurfum við að geta byggt sem fyrst.

Viðræður lífeyrissjóðanna eru í gangi um að koma að fjármögnun þessa verks. Það er tiltölulega auðvelt að hrinda því mjög fljótt í gang ef við fáum byggingarleyfi vegna þess að Flugstoðir ohf., hið opinbera hlutafélag, getur boðið út til lífeyrissjóða og annarra til að fá lánað fé fyrir þessu verki. Þannig ætlum við að vinna það og endurgreiða það svo á 20–25 árum með leigugjöldum til hagsmunaaðila sem koma inn, til þjónustuaðila og annarra.

Þetta er í þessari vinnu, virðulegi forseti. Það er ágætisgangur í þessu og við vinnum þetta eins hratt og við getum. Vonandi kemur niðurstaða, eins og ég sagði, sem allra fyrst hvað það varðar. Ef við fáum leyfi til að byggja núna hygg ég að við getum byrjað eftir 3–5 mánuði. Byggingartíminn á svona samgöngumiðstöð er 12–18 mánuðir, sennilega 16–17 mánuðir. Við höfum minnkað þá byggingu sem hugsuð var ofan í u.þ.b. 3.000 fermetra til að gera hana ódýrari. Þar af leiðandi þarf minna fé í hana, hún verður ódýrari í rekstri og leggst þá minna á þá sem munu nota hana í leigugjöld og annað.

Virðulegi forseti. Þessi umræða er dálítið í takt við það sem ég nefndi í byrjun, en vonandi fer þessari 62–63 ára umræðu að ljúka og við getum hafist handa við að byggja almennilega samgöngumiðstöð sem sæmir þjóðinni, í staðinn fyrir þá skúra sem kallast flugstöð í dag úti á Reykjavíkurflugvelli.