138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu, þótt því miður hafi ekki verið algjör samhljómur í henni.

Út af orðum eins hv. þingmanns hér áðan um að það væri þverpólitískur vilji meðal flokkanna í Reykjavík fyrir því að flugvöllurinn færi úr Reykjavík vil ég minna á að framsóknarmenn lögðu áherslu á það í borgarstjórnarkosningunum árið 2006 að flugvöllurinn yrði byggður upp á þessu svæði, reyndar kannski ekki í umræddri mýri, en nú held ég, og tek undir með þeim sem talaði um rómantískt hjal, að við þurfum að líta bláköldum augum á staðreyndir málsins. Við getum ekki varið einhverjum milljarðatugum á næstu árum í að byggja upp nýtt flugstæði í Reykjavík. Og skilaboð mín til hæstv. samgönguráðherra eru þau að framsóknarmenn eru reiðubúnir til að eiga gott samstarf við hæstv. ráðherra þegar kemur að lausn þessa máls og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hlý orð í garð þeirra sem eru í meiri hluta í Reykjavík ásamt Sjálfstæðisflokknum.

Vilji framsóknarmanna til þess að leysa þetta mál er mjög eindreginn. Undir sólinni geta hlutirnir breyst og við skulum horfast í augu við það að fjármunir eru af skornum skammti eins og hæstv. ráðherra benti á. Við þurfum að fara vel með opinbert fé og þess vegna er mikilvægt að halda áfram að byggja þessa samgöngumiðstöð upp á þessu svæði.

Ég vil að lokum ítreka að ég tel að mikilvægi flugvallarins sé mjög mikið fyrir Reykvíkinga, enda hafa kannanir sýnt að meiri hluti Reykvíkinga vill að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni og nær allir landsmenn vilja að flugvöllurinn sé á þeim stað sem hann er. Ég held að hæstv. ráðherra gangi í takt við okkur flesta þingmenn þó að Samfylkingin virðist því miður ekki ganga í takt (Forseti hringir.) í þessu máli í þessari umræðu, eins og í svo mörgum málum, frú forseti.