138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir umræðuna. Við skulum hins vegar hafa alveg á hreinu vegna þeirra orða sem féllu hér í lokin hjá síðasta ræðumanni að það eru skiptar skoðanir í öllum flokkum um hvort völlurinn eigi að vera eða fara. (Gripið fram í.) Við skulum virða skoðanir hver annars og allra í þessum efnum, jafnt þeirra sem vilja að völlurinn fari eitthvað annað og þeirra sem vilja að hann verði áfram og við skulum vinna út frá því. Hins vegar skulum við líka hafa í huga, vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni, að ef við erum að hugsa um að færa völlinn í burtu, á það svæði sem ég hef alltaf haldið að væri eina svæðið sem kæmi til greina á höfuðborgarsvæðinu, upp á Hólmsheiði, er kostnaðurinn gríðarlegur. Þó að Hólmsheiðin sé í tæplega 150 metra hæð yfir sjó og mikilli nálægð við fjöll held ég að það sé eina svæðið sem kemur til greina og þá er það rétt sem hv. þingmaður talaði um kostnað hvað þetta varðar. Þótt ég geri mér ekki grein fyrir út frá hvaða vísitölu hann talar, það verður alltaf að hafa vísitölurnar í huga núna, hygg ég að það mundi kosta a.m.k. 25 milljarða að byggja upp slíkan völl á Hólmsheiði. Við getum spurt okkur að því, virðulegi forseti og ágætu þingmenn, hvort eitthvað sé að fara að gerast á næstunni í því. (Gripið fram í: Nei.) Ég held ekki. Ég bara vildi setja þetta hérna inn en þakka fyrir þá umræðu sem hér varð.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði mig hvað ég teldi að þetta tæki langan tíma. Ég vona að þetta byrji sem allra fyrst vegna þess að okkur liggur á. Okkur liggur á að fá niðurstöðu um það hvort við getum farið í þessa byggingu, hvort þetta verkefni komi inn í þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir og vill koma í gang á þessum erfiðleikaárum okkar þar sem við þurfum að skapa vinnu og verkefni, arðbær og góð verkefni. Þá þarf að fá svar við því hvort við komumst í þetta verk. Við erum tilbúin um leið og við fáum grænt ljós frá borginni.