138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[15:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir beinir til mín fyrirspurn út af endurbótum á Suðurlandsvegi, annars vegar á kaflanum „Hólmsá – Hveragerði“ og hins vegar á kaflanum „Hveragerði – austur fyrir Selfoss“.

Það kom fram í máli hv. þingmanns sem er alveg hárrétt að í sáttmálanum sem gerður var og unnið er eftir, stöðugleikasáttmálanum, er fylgiskjal um samgönguframkvæmdir. Þar er Suðurlandsvegur inni, bæði það sem menn kalla fyrsta áfanga, sem er Reykjavík – Hveragerði, og annan áfanga, sem er Hveragerði – Selfoss, sem eitt þýðingarmesta og mest áríðandi verkið að fara í. Það hefur ekkert breyst hvað það varðar. Þetta er umferðarmesti vegur landsins. Þetta er þýðingarmest og okkur liggur mest á að fara þarna í ákveðnar framkvæmdir, sem kortlagðar hafa verið í mikilli sátt um sambland af 2+1 og 2+2 vegi, útfærslu sem ég held að sé mjög góð, sem er auðvitað aðalatriði líka í að skapa meira umferðaröryggi og aðskilja akstursstefnur. Eins og ég segi er þetta þýðingarmesta atriðið í samgöngumálum, það er flokkað þannig og unnið eftir því.

Ég er sæmilega bjartsýnn á það, virðulegur forseti, að innan skamms komi til útboðs á fyrsta áfanganum, þ.e. þeim áfanga sem var tilbúinn til útboðs þegar við þurftum að stoppa eftir hin miklu og mörgu útboð í upphafi þessa árs. Þá var sem sagt komið að þessum kafla sem er frá Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofu, 7–8 km ef ég man rétt.

Þetta er mikið verk allt saman og það tekur okkur aðeins lengri tíma að undirbúa skipulagsmál og umhverfismál og allt þetta, sérstaklega hvað varðar Hveragerði – Selfoss en annað ætti að vera til.

Það er rétt að talað hefur verið um það sem einkaframkvæmdarverk. Þetta er mikið verk. Þetta eru um 50 km og áætlaður kostnaður á öllu verkinu er 16 milljarðar kr., sem skiptast þannig að Suðurlandsvegur að Hólmsá, 6,4 km, er áætlað að kosti 3,4 milljarða, Hólmsá – Hveragerði, 30 km, er áætlað að kosti 5,2 milljarða og Hveragerði – Selfoss, með nýrri Ölfusbrú, 13,6 km, yrði 7,2 milljarðar, samtals um 50 km og 16 milljarðar kr. Það er sú umræða sem er í gangi við fulltrúa lífeyrissjóðanna, um hvernig eigi að útfæra þetta og setja fram.

Við sáum í fréttum í dag að á vegum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna var undirritaður mikilvægur og góður sáttmáli um það hvernig á að vinna að byggingu nýs Landspítala. Það var auðvitað forgangsmál í þessu. Ég held að við Íslendingar eigum það inni að byggja okkur nýjan Landspítala, en umræðan um samgönguframkvæmdir er líka í gangi. Þá koma til greina nokkrar leiðir um hvernig eigi að gera þetta. Ein er t.d. þannig að ríkið eigi einhvers konar hlutafélag sem tekur að sér að byggja vegi í einkaframkvæmd og þá er ekki tekið af hefðbundnu ríkisfé, vegaframkvæmdir sem væru settar í forgang fram yfir hefðbundna samgönguáætlun, eða hvort við þurfum að fara útboðsleið og bjóða út sérleyfið, bjóða út hver vill taka að sér og byggja, reka og fjármagna. Þetta er sú vinna sem er í gangi og henni er ekki lokið. Fyrr getum við ekki sagt neitt um hver niðurstaðan verður, hvaða leið verður farin, vegna þess að það var talsvert miklu auðveldara þegar Hvalfjarðargöng voru gerð, þá voru ekki ýmsar kröfur sem eru á okkur í dag um gegnsæi og að allir sitji við sama borð o.s.frv. Þá var hægt að afhenda það einu félagi sem nú er ekki lengur hægt.

Þessi vinna er í gangi og vonandi verður sem fyrst komin niðurstaða í hana vegna þess að þetta eru auðvitað hlutir sem ekki hefur verið klárt hingað til hvernig á að standa að. Við þurfum að skrifa það svolítið í stein núna, við þurfum að marka leiðina og við erum m.a. að viða að okkur gögnum og upplýsingum frá nágrannaþjóðunum um hvernig þetta hefur verið gert þar. Ég á von á því, virðulegur forseti, að þetta gangi sem fyrst.

Ég vil aðeins segja að vonandi kemur til þess að — ja, ég sé að tími minn er búinn þannig að ég kem að því í seinna svari mínu.