138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[15:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Á fundum okkar þingmanna kjördæmisins í þarsíðustu viku kom mjög skýrt fram hjá sveitarstjórnum á Suðurlandi að þær teldu þessa framkvæmd, Suðurlandsveginn, vera langmikilvægasta verkefnið fyrir Suðurlandið, og landið allt eins og hefur komið fram hérna í tölum varðandi þjóðhagslega hagkvæmni og annað. Hins vegar höfum við takmarkað fé og menn hafa líka haft miklar áhyggjur af því að það eigi að rukka einhvers konar veggjöld fyrir veginn. Það hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir telja grundvallarforsendu fyrir því að fara í þessa framkvæmd að þeir geti rukkað einhvers konar gjöld fyrir notkun á veginum. Spurningin er þá hvort það geti ekki verið mikilvægara að fara í einhvers konar aðrar framkvæmdir sem tryggja tekjur til framtíðar fyrir þjóðina. Þá er það eins og Búðarhálsvirkjunin sem skiptir geysilega miklu máli. Það er nefnilega þannig (Forseti hringir.) að við byrjum á því að skapa vinnuna, þar með kemur vöxturinn og þar með eigum við peninga til að byggja upp velferðina og infrastrúktúrinn í landinu.