138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[16:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við stöndum frammi fyrir því eins og við sjáum í gildandi samgönguáætlun, margskrifað um það þar og margar skýrslur hafa verið skrifaðar um það hvernig við munum afla fjár til vegagerðar og reksturs vegakerfisins á komandi árum. Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að sem betur fer mun umhverfisvænum bílum fjölga, þeim hefur fjölgað og þeim mun fjölga mjög á næstu árum. Megintekjustofn til vegakerfisins er í gegnum bensíngjald og olíugjald og lítils háttar í gegnum þungaskatt. Þetta eru allt saman tekjustofnar sem hafa lækkað mjög hlutfallslega á undanförnum árum og munu lækka mjög og kannski meira á næstu árum út af þessu. Aðilar sem keyra á bíódísli í dag greiða ekki hluta af olíugjaldi til Vegasjóðs enda er þegar í síðustu samgönguáætlun fjallað um leiðir sem eru til um hvernig eigi að gera þetta. Sú vinna hefur farið fram.

Ég hef lesið skýrslur um gjaldtöku á einkaframkvæmd í fjármögnun samgöngumannvirkja sem unnar voru í tíð forvera míns, Sturlu Böðvarssonar, (Gripið fram í.) og ég hef lesið um einkaframkvæmd í samgöngum sem er líka skýrsla sem þarna hefur komið fram. Ég hef kynnt mér stefnur flokkanna og eini flokkurinn sem sennilega hefur ályktað um það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur ályktað um að full ástæða sé til að kanna annars konar gjaldtöku á umferð en er í dag.

Það er það sem bíður okkar, virðulegi forseti, og við þurfum að vinna það eins og svo mörg önnur verk sem við þurfum að fara í og erum í til þess að kanna hvernig við getum náð meiri árangri í að byggja upp vegi, ég tala nú ekki um umferðarmesta veginn (Forseti hringir.) eins og við erum að tala um hér, til að skapa meira umferðaröryggi. Ég ætla að vona það líka, virðulegi forseti, að við komumst sem allra fyrst í útboð á fyrsta áfanga af Suðurlandsvegi.