138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Flóahrepps.

97. mál
[18:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrirspurnina sem varðar staðfestingu aðalskipulags Flóahrepps. Aðalskipulagstillaga Flóahrepps barst ráðuneytinu með bréfi 9. mars sl. og samgönguráðuneytið úrskurðaði um tiltekna þætti sem kærðir voru þangað varðandi greiðslu kostnaðar vegna aðalskipulags í byrjun september. Það var hins vegar mat ráðuneytisins að ekki væri unnt að taka umrædda aðalskipulagstillögu til afgreiðslu fyrr en sá úrskurður hefði verið uppkveðinn, eins og þingmaðurinn kom aðeins inn á hér og skýrir þann langa tíma sem liðinn er síðan í mars. En það er von á endanlegri afgreiðslu aðalskipulagstillögunnar frá ráðuneytinu innan skamms.

Varðandi málsmeðferðina almennt, ef ég reifa hana aðeins, þá er það þannig að í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, eru ekki tilgreind tímamörk varðandi ákvarðanir ráðherra vegna staðfestingar aðalskipulagstillagna og stjórnsýslulög gilda ekki sem slík um ákvarðanir ráðherra viðvíkjandi staðfestingu eða synjun aðalskipulagstillagna þar sem skipulag telst til stjórnvaldsfyrirmæla en ekki stjórnvaldsákvarðana í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Hins vegar leitast ráðuneytið vissulega við að afgreiða þær skipulagstillögur sem því berast eins fljótt og unnt er í samræmi við almennar kröfur um málefnalega stjórnsýslu en afgreiðslutíminn ræðst vissulega af umfangi og eðli sérhverrar tillögu og atvika sem upp kunna að koma í tengslum við hana.

Í ljósi þessa svo og þeirra mikilvægu margþættu hagsmuna sem skipulags- og byggingarlög leggja á ráðherra að vernda er það mat ráðuneytisins að það liggi ekki annað fyrir en að vinnulag vegna málsins hafi verið eðlilegt. Í því sambandi skiptir m.a. máli að mikil áhöld hafa verið um réttmæti skipulagstillögunnar á forsendum þeirra tilteknu þátta sem vísað var til og sætti kæru til samgönguráðuneytisins. Málið varðar að mínu mati afar mikilvæga verndarhagsmuni skipulags- og umhverfisréttar sem krefjast mjög rækilegrar skoðunar. Í því ljósi var tekin ákvörðun um það af umhverfisráðuneytinu að veita Flóahreppi sérstakt færi á að koma að athugasemdum vegna úrskurðar samgönguráðuneytisins. En eins og áður sagði barst úrskurðurinn ráðuneytinu með bréfi 3. september, einkum er varðar lögmæti greiðslusamkomulags sveitarstjórnar og Landsvirkjunar og barst bréf sveitarstjórnar þar um ráðuneytinu nú rétt fyrir miðjan október sl., fyrir u.þ.b. þremur vikum, ég er ekki að vísu með dagsetninguna.

Þannig að með vísan til þessa er það mitt mat og ráðuneytisins að stjórnsýsla vegna málsins hafi ekki farið á svig við kröfur um vandaða stjórnsýsluhætti og eins og ég gat um í upphafi máls míns er von á endanlegri afgreiðslu aðalskipulagstillögunnar frá ráðuneytinu innan skamms. Ég geri mér grein fyrir því sem þingmaðurinn nefndi og það eru eðlilegar vangaveltur sem varða þá staðreynd að gildandi aðalskipulag er ekki til í sveitarfélaginu of því er málefnaleg ástæða til þess að herða sérstaklega á þessari vinnu.