138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

98. mál
[18:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda aftur fyrir að taka þetta hér upp en ég sakna þess að hæstv. ráðherra skyldi ekki hafa svarað spurningu minni áðan um aðalskipulag Flóahrepps, hvað teldist eðlilegur umfjöllunartími um aðalskipulagstillögur í ráðuneytinu. Hér er um að ræða breytingu á aðalskipulagstillögu, breytingu sem búin var að fara í gegnum kosningar í sveitarfélaginu og kom ekki nokkrum einasta manni á óvart á Íslandi þar sem búið var að fjalla þvílíkt og annað eins um málið. Þetta er vissulega talsverð breyting á aðalskipulaginu en hún var búin að vera til umfjöllunar í fjögur ár ef ekki meir og var búin að fara í gegnum kosningar í sveitarfélaginu og fá verulega umfjöllun. Það hefði því ekki átt að koma ráðuneytinu svo mjög á óvart að það þyrfti að fjalla um málið, alla vega ekki svo mikið — það eru um það bil 29 dagar síðan afgreiðsla tillögunnar lá fyrir og var send frá sveitarstjórn. Það hefur tekið ráðuneytið heilt ár að svara breytingu á aðalskipulagi. Þetta gengur ekki. Þetta er ekki góð stjórnsýsla.