138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

98. mál
[18:25]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil enn þakka fyrirspyrjanda og þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Mér fannst það raunar áhugavert hér í lokin þegar hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir vék orðum sínum að umræðunni um skipulags- og byggingarlög og um landsskipulagið. Ég er í þeirri sérkennilegu stöðu að hafa sjálf verið sveitarstjórnarmaður sem hafði miklar skoðanir á landsskipulaginu og er nú í sæti umhverfisráðherra sem hefur jafnan gert tilraunir til að leggja fram skipulags- og byggingarlög með þeirri breytingu að landsskipulag væri þar tekið inn. Það er náttúrlega alveg ljóst að við getum átt langar umræður um nákvæmlega þau mál og ég mundi gjarnan vilja gera það við tækifæri, af því þarna þarf að stilla saman þessar tvær ólíku hliðar hins opinbera þannig að hagsmununum sé haldið til haga í þágu íbúanna. Sumir hagsmunir eru þannig að þeir varða heildina, eins og til að mynda samgönguáætlun eða náttúruverndaráætlun eða eitthvað slíkt, og svo eru það hinir staðbundnu hagsmunir — þetta þarf allt að stilla saman með einhverjum hætti þannig að það sé haft í einhverjum uppbyggilegum og eðlilegum úrlausnarfarvegi.

Varðandi umræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar — þetta er hárrétt, að hér er um að ræða breytingu á aðalskipulagi en ekki staðfestingu. Þegar ég var búin að sitja í ráðuneytinu í tvo daga, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir bendir á, var sent bréf frá ráðuneytinu þess efnis að sveitarfélaginu var gert að halda tiltekinn kynningarfund sem skorti á í ferlinu. Þetta var í júní sl. og ég hef nú ekki söguna fram að þeim tíma, þannig að ég átta mig ekki á því nákvæmlega, hef ekki rökin fyrir því, hvað hafði gerst fram að þeim tíma. En ég er sammála því að það þarf að rýna þessa ferla alla saman afar vel og það þarf að tryggja að þetta sé allt saman gert með gagnsæjum og eðlilegum hætti. Ég vil bara (Forseti hringir.) róa þingmenn Suðurkjördæmis með því að þessu mun verða lokið fyrr en síðar og innan fárra vikna eins og ég gat hér í mínu fyrra svari.