138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.

52. mál
[18:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Á árinu 2007 ályktaði Vestnorræna ráðið um að auka samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlanda og einnig við önnur ríki við Norður-Atlantshaf. Einnig var lögð fram þingsályktun um stuðning við aukið samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og í landi í vestnorrænu löndunum. Í framhaldi þessa, þ.e. á árinu 2008, var síðan haldin björgunar- og leitaræfing í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum, sem danski sjóherinn tók m.a. þátt í, svokallaður Grönlands Kommando. Í kjölfarið bauð yfirmaður þeirra, varaaðmíráll Henrik Kudsk, að halda þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins síðasta sumar í aðalstöðvum hersins í Grænadal á suðvesturströnd Grænlands. Ástæðan fyrir þessu öllu saman var mikill vilji aðmírálsins og hersins til að efla samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja, auk annarra, eins og Norðmanna, sem koma að björgun, leitar- og eftirlitsstörfum á Norður-Atlantshafi. Einnig vildi varaaðmíráll Henrik Kudsk koma því að hve miklir möguleikar væru að opnast í tengslum við opnun siglingaleiða í Norður-Íshafi, bæði vestan við Grænland og eins norðan og vestan við Noreg. Samhliða möguleikunum eru vaxandi áhyggjur og vandamál sem fylgja mun meiri siglingum á svæðinu og þó ekki sé komið að því að flutningaskip hlaðin olíu eða öðru slíku sigli hér um farvötnin hefur það nú þegar gerst að skemmtiferðaskip eru farin að fara mun lengra upp með austurströnd Grænlands og koma gjarnan við hér á Íslandi og sigla á áður óþekktu hafsvæði. Stærð Grænlands er gríðarleg, við uppgötvuðum það í þessari ferð til Grænlands, og það getur tekið marga daga fyrir skip að fara frá vesturströndinni þarna lengst norður austanmegin.

Það kom fram í máli hersins að helsti samstarfsaðili þeirra á þessu svæði öllu er Landhelgisgæslan. Maður skyldi því velta því fyrir sér með hvaða hætti við erum í stakk búin til þess. Landssamband smábátaeigenda hefur einnig fjallað um slíka hluti á liðnum árum og hefur haft áhyggjur af því að vaxandi þörf sé á eftirliti og aðstæðum til björgunar á þessu svæði. Ég velti því upp, og það er tillaga frá framkvæmdastjóra landssambandsins, hvort ekki sé ástæða til að hefja nú þegar viðræður við Færeyinga, Dani, Norðmenn, Hjaltlendinga og Grænlendinga um stofnun sameiginlegrar björgunarmiðstöðvar við Norður-Atlantshaf með aðsetur hér á landi.

Spurningarnar snúast því um það hvernig eftirliti með björgunarstörfum er háttað og samstarfinu við Grænlendinga, Færeyinga og Norðmenn og hvort unnið sé að áætlun um aukið eftirlit og björgunarstörf í ráðuneytinu í kjölfar opnunar þessara siglingaleiða. (Forseti hringir.) Ég spyr einnig hvort Landhelgisgæslan sé í stakk búin til að taka við þessum auknu verkefnum.