138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.

52. mál
[18:42]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka einnig þessa umræðu. Það er alltaf mikilvægt að tala um Landhelgisgæsluna. Ég ætlaði að koma inn á það að þótt svæðin sem um er að ræða séu á ábyrgð Landhelgisgæslunnar að öllu eða hluta, þá sinnir Gæslan þó ekki þessum svæðum ein og óstudd heldur kemur alþjóðleg samvinna þar til hjálpar eins og ég hef lýst. Miðstöð þessarar alþjóðlegu samvinnu er síðan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eða Vaktstöð siglinga og með samvinnu Landhelgisgæslunnar, Neyðarlínunnar og Siglingamálastofnunar, auk Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hefur undir forustu Landhelgisgæslunnar undanfarin ár tekist vel til að gera þessa miðstöð að alþjóðlegri öryggis-, eftirlits- og björgunarmiðstöð sem sinnir aðgerðum á stórum hluta Norður-Atlantshafsins.

Hvað varðar hugmyndir um sameiginlega björgunarmiðstöð hér á landi og aðrar góðar hugmyndir sem hv. fyrirspyrjandi kom með, þá tel ég að þetta sé akkúrat rétti tíminn að bera fram slíkar hugmyndir vegna þess að nú hef ég skipað starfshóp alþingismanna og embættismanna til að fara yfir málefni Landhelgisgæslunnar. Slík umræða á einmitt heima í þessum starfshópi, að ræða frekari möguleika á samvinnu og jafnvel að festa hana í form eins og hér hefur verið nefnt, auk þess hvernig við getum verið sem best búin að sinna eftirliti og björgun og leit á þessu hafsvæði. Raunar liggur ekki fyrir hversu mikil aukning verður á skipaumferð, það á eftir að koma í ljós en við verðum að vera við öllu búin.