138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

úrbætur í fangelsismálum.

86. mál
[18:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Um miðjan september fór ég fram á fund í allsherjarnefnd vegna óviðunandi ástands í fangelsum landsins. Á hátíðarstundum er talað um að við búum í réttarríki en þegar ekki er hægt að fullnægja refsingum, þá fjarar nokkuð undan þeirri sýn. Það eru 133 afplánunarrými í landinu en í september, um miðjan september voru 240 dómþolar á boðunarlista Fangelsismálastofnunar vegna óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga. Það er um neyðarástand að ræða og það sem er kannski alvarlegast í þessu öllu saman er að 1.600 einstaklingar bíða afplánunar vegna fésekta og upphæðirnar á bak við þá aðila eru um 2 milljarðar. Það dugar hvorki meira né minna en fyrir tveimur fangelsum. Allir sjá því að verkefnið er brýnt að gera hér úrbætur þannig að bæði sé hægt að fá þessar fésektir inn ef fólk ætlar ekki að standa í skilum með þær og eins að hægt sé að uppfylla þau mannréttindi að þeir sem hafa hlotið dóm fái að taka hann út.

Það vantar pláss og eftir þennan fund var farið í það að gera úrbætur. Tekin var ákvörðun um að leita eftir leiguhúsnæði um stundarsakir til að ná þessum kúfi eitthvað niður til að losa um það ástand sem nú ríkir, því að miðað við þær fréttir sem við fáum má reikna með að embætti sérstaks saksóknara skili einhverjum afurðum og þá er mjög brýnt fyrir okkur sem þjóð að fækkað hafi í þeim hópi sem nú bíður refsingar. Eftir útboð sem farið var í skiluðu 11 aðilar inn tilboði í útboð um húsnæðisúrbætur til að taka við vararefsingu. Þá var meiningin að Fangelsismálastofnun tæki húsnæði á leigu til að fara í þessar brýnu aðgerðir og minnka þennan hóp. Það var búið að velja úr þrjá staði eftir því sem mér skilst en síðan hefur ekkert heyrst af þessu máli. Því langar mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra:

Hvað líður úrbótum í fangelsismálum og hvar standa málin núna miðað við 1. nóvember 2009?