138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

úrbætur í fangelsismálum.

86. mál
[18:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við lifum í ófullkomnum heimi og því miður er þörf á fangelsum, allt er yfirfullt á Litla-Hrauni, eins og hér hefur komið fram, og eru þar um 88 fangar en gert er ráð fyrir 77 almennt og tveir eru í sumum klefunum. Þetta er erfið staða. Biðlistinn eftir að komast í afplánun lengist og eru núna um 240 á honum. Í fjölmiðlum hefur komið fram að ef hópur manna fremdi núna gróft ofbeldisbrot, þá væri hvergi pláss fyrir þá. Þannig að mig langar til að spyrja: Hvað eigum við að gera ef slík staða kemur upp? Menn eru að velta því fyrir sér í fangelsiskerfinu.

Svo langar mig líka að inna ráðherrann eftir því, ef hæstv. ráðherra hefur svör, að alveg er að bresta á að refsingar fari að fyrnast, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins í október. Er þetta alveg að bresta á núna bara á næstu mánuðum?

Í þriðja lagi: Sektarrefsingar eru þegar farnar að fyrnast. Hvað er mikið um það? Hvað er ríkissjóður að tapa miklu fjármagni af því að sektarrefsingar fyrnast?