138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

úrbætur í fangelsismálum.

86. mál
[18:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka dómsmálaráðherra skýr og góð svör, eins og hennar er von og vísa, og þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni.

Ráðherra kynnti til sögunnar að verið væri að smíða nýja löggjöf varðandi fullnustu refsinga og vissulega ber að fagna því, þó að ég vari við því að það verði einhver kreppulöggjöf og kannski einhver léttari leið fundin út úr refsingum, því við megum ekki láta þessa kreppu hafa þau áhrif að við förum að slaka á alls staðar í kerfinu. Ég minni samt á það að refsingar eiga fyrst og fremst að vera betrun og við viljum fá betri einstaklinga út, enda hefur grettistaki verið lyft í fangelsum landsins og þaðan komið út betri og bættari einstaklingar og höfum við staðið okkur langtum betur í því heldur en nágrannalöndin.

Við vitum að óhentugt húsnæði er dýrt en við erum að tala um þennan bráðavanda og saknaði ég þess svolítið í svörum ráðherrans að ekki kom svar við spurningunni: Hvað við eigum að gera núna? Ég bað um fund í september í allsherjarnefnd og þá var talað um að þetta væri mikill bráðavandi, en nú eru að verða komnir tveir mánuðir síðan og ekkert hefur breyst og listarnir eru enn að lengjast og ekki neitt sýnilegt varðandi það hvernig við eigum að leysa þetta aðsteðjandi vandamál í fangelsismálum.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra varðandi það að auðvitað þarf að byggja hér öryggisfangelsi. Fangelsismálastofnun hefur bent á að það er ekki svo mjög dýrt miðað við það hagræði sem hlytist af því og svo sannarlega skal ég beita mér fyrir því á meðan ég sit í allsherjarnefnd að taka þátt í því. Ég hvet ráðherrann áfram til góðra verka, en óska eftir að hún svari því hvað er að gerast núna á þessum vikum. (Forseti hringir.)