138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

úrbætur í fangelsismálum.

86. mál
[18:56]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Það sem er að gerast núna — og það tengist kannski athugasemd frá hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur, það sem gerðist og varð til þess að við í rauninni rukum af stað í þetta mál og umræða spratt upp um þetta, ef margir yrðu handteknir í einu er ljóst að mikið vandamál verður uppi af því að fangelsin eru yfirfull. Til þess að leysa vandann svo brotamennirnir yrðu ekki sendir strax út á götuna aftur, var brugðið á það ráð að vista fanga að ákveðnu leyti í fangaklefum lögreglustöðva. Það er dýr lausn og ekki langtímalausn, vegna þess að hver sá sem hefur komið í fangageymslur lögreglustöðva veit að þær eru ekki varanlegur íverustaður, þannig í stað þess að sleppa mönnum út var þessi bráðabirgðalausn notuð og er enn við lýði. Ástæðan fyrir því að ekki er enn búið að taka húsnæði á leigu er sú að það er ekkert svo óskaplega einfalt að finna húsnæði sem er hentugt undir fangelsi. Þar stendur hnífurinn í kúnni, mjög vandasamt er að finna slíkt húsnæði sem er ekki allt of dýrt til þess að reka þar fangelsi, vegna þess að nú þegar vitum við að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi eru mjög dýr pláss. Þess vegna er í rauninni hentugra að byggja einfaldlega nýtt fangelsi og leggja þau tvö niður.