138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gerð samninga um flutning dæmdra manna.

95. mál
[19:02]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er kærkomið tækifæri til þess að fara aðeins ofan í þessi mál og skýra þau út en líka góð hvatning til að huga áfram að þessum málum.

Það hafa ekki verið gerðir sérstakir samningar við aðildarríki Evrópuráðsins eða önnur ríki sem eiga aðild að Evrópuráðssamningnum um flutning fanga frá 1983, en það hefur verið gert samkomulag um samstarf við Litháen um málsmeðferð eins og ég greini nánar frá á eftir. Þess má geta að 63 ríki hafa fullgilt samninginn og þar af eru 17 ríki utan Evrópu. Upphaflegur samningur er frá 1983 og felur í sér að flutningur fanga til heimalands geti átt sér stað með samþykki þriggja aðila, þ.e. afplánunarríkisins, heimalandsins og fangans. Þannig varð samþykki fangans lengi vel að liggja fyrir ef flytja átti hann til heimalands síns.

Árið 1997 var hins vegar gerður viðauki við samninginn og fólu breytingarnar í sér að heimilt var án samþykkis fangans að flytja hann til síns heima ef fanginn hafði komið sér undan fullnustu refsingar að hluta eða heild og ef senda átti dómþola úr landi eða vísa honum brott úr ríkinu sem bað um fullnustu. 35 ríki hafa fullgilt viðaukann, allt Evrópuríki, þar á meðal Litháen og Pólland.

Samkvæmt 2. og 3. gr. samningsins frá 1983 hvílir engin skylda á aðildarríkjunum að samþykkja flutning en samningnum var ætlað að koma á samvinnu ríkja í þessum málaflokki og koma málunum í ákveðinn farveg. Þrátt fyrir þetta hefur í framkvæmd borið á því að mjög hægt gangi að fá erindi afgreidd í mörgum ríkjum enda er það ekki keppikefli ríkja að taka fanga til sín til afplánunar. Við þetta bætist að sjálft undirbúningsferlið hér á landi tekur langan tíma. Flestir fanganna vilja ekki afplána í sínu heimalandi og því þarf að liggja fyrir brottvísunarúrskurður áður en ákveðið er að senda beiðni til heimalands fangans. Mál erlendra afbrotamanna eru tekin fyrir hjá Útlendingastofnun þegar fullnaðardómur hefur gengið í máli þeirra. Ákvörðun Útlendingastofnunar er síðan kæranleg til dómsmálaráðuneytisins.

Þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir um brottvísun er hægt að senda dóma og önnur nauðsynleg gögn í þýðingu. Þá þarf að afla afstöðu fangans en samkvæmt 3. gr. samningsviðauka þarf að gera sérstaklega grein fyrir afstöðu þeirra til flutnings í beiðninni til heimalandsins. Þegar hægt er að senda út beiðni er fanginn búinn að afplána nokkra mánuði, jafnvel ár í gæsluvarðhaldi auk nokkurra mánaða sem brottvísunarferlið og annað undirbúningsferli tekur. Þá setur samningurinn það að skilyrði að a.m.k. sex mánuðir séu eftir af afplánun viðkomandi fanga.

Ljóst er að flutningur fanga til afplánunar í heimalandi sínu er ekki raunhæft úrræði til að takast á við þann vanda sem fangelsiskerfið á við að etja þar sem ferlið er mjög langt og þungt í vöfum. Einungis er hægt að flytja fanga sem hlotið hafa þunga dóma, t.d. tveggja til þriggja ára dóma eða þyngri. Í fangelsum ríkisins sitja í dag níu erlendir fangar með þyngri dóm en tveggja ára fangelsi. Einn af þeim er þegar í flutningsmeðferð og beðið er eftir brottvísunarúrskurði í málum fimm þeirra. Ekki eru skilyrði til að flytja þrjá til síns heima.

Vegna þess hve seinlega gekk að afgreiða beiðnir sem bárust til Litháens gerðu dómsmálaráðherrar Íslands og Litháens með sér sérstakt munnlegt samkomulag í maí 2008 um að veita beiðnum á grundvelli Evrópuráðssamningsins forgang þannig að beiðnirnar yrðu afgreiddar eins fljótt og kostur væri. Hefur það gengið eftir og haft mjög góð áhrif á framkvæmdina. Dómsmálaráðherrar landanna skrifuðu svo undir samstarfsáætlun í Vilníus þann 29. ágúst 2008 um samstarf um hin ýmsu málefni.

Hvað varðar spurninguna um það hvort til standi að gera fleiri samninga eins og þann sem gerður var við Litháen hefur verið lögð áhersla á það að flýta framkvæmd málanna fremur en að efna til nýrrar samningsgerðar, en það hefur þó verið rætt um að freista þess að gera svipað samkomulag og gert var við Litháen við þau ríki sem erlendir brotamenn koma frá eftir því sem kostur er að ríkin ákveði að setja í forgang beiðni hvort frá öðru þannig að það verði ekki óþarfa tafir á málsmeðferðinni sem er allt of löng nú þegar.