138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gerð samninga um flutning dæmdra manna.

95. mál
[19:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég skil svarið sem svo að ekki hafi verið gerðir samningar á grundvelli Evrópuráðssamningsins en að gerðir hafi verið annars konar samningar til að reyna að liðka fyrir málshraða, málsmeðferðinni.

Mér finnst, virðulegur forseti, að það eigi að skoða þessi mál virkilega vel. Nú er staðan sú að við erum með algjörlega yfirfull fangelsi, það bara flæðir. Það hefur komið hér fram í fyrri svörum hæstv. dómsmálaráðherra, og sú staða kom upp, að það þurfti að handtaka hóp manna og þá varð að setja þá inn á lögreglustöð, sem er eiginlega algjörlega óhæft úrræði, allt of dýrt og óhentugt. Við stöndum því bara á þessari brún, bjargbrún varðandi það hvað eigi að gera ef hér heldur fram sem horfir að fjöldi sakamanna aukist og fjöldi fanga hefur aukist allverulega á síðustu árum. Það er ekki langt síðan við vorum með frekar lítinn biðlista, vorum bara í góðum málum miðað við nágrannaríkin. Þetta hefur allt snúist við.

Mér finnst vera virkileg rök fyrir því að við séum í samskiptum við þær þjóðir sem helst eiga sína borgara í fangelsum okkar til að útskýra fyrir þeim að fangelsin hér á landi séu yfirfull og að við getum lent í miklum vandræðum ef við náum ekki að tappa eitthvað út úr okkar fangelsum. Þetta er tiltölulega hátt hlutfall að fimmti hver fangi hér á landi sé af erlendu bergi brotinn, þetta er líklega meira en helmingi hærra hlutfall en fjöldi útlendinga á Íslandi almennt. Það er því algjörlega eðlilegt að reyna að skoða hvernig við getum liðkað fyrir því að menn fái að afplána í sínu heimalandi. Ég geri mér grein fyrir því, miðað við svörin, að bæði þarf ríkið að vilja það og fanginn sjálfur og hvorki vill nú ríkið það né fanginn en menn verða að skilja í hvaða aðstöðu við erum.

Ég vil hvetja hæstv. dómsmálaráðherra áfram á þeirri leið að reyna að liðka betur fyrir því að við getum sent fanga til síns heima á meðan fangelsin okkar eru yfirfull.