138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stöðugleikasáttmálinn.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mundi í sporum hv. þingmanns tala varlega um hvernig velferðarkerfið þróaðist í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þegar var mikil uppsveifla, þegar var 70–80 milljarða afgangur á ríkissjóði, þá var það tækifæri því miður ekki nýtt til að bæta velferðarkerfið eins og hefði þurft að gera. (Gripið fram í.) Ég bið bara menn að fara þá yfir málið, (Gripið fram í.) þetta eru bara staðreyndirnar (Gripið fram í.) sem ...

(Forseti (RR): Gefið hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að svara.)

Nú stöndum við frammi fyrir því að á þessu og næsta ári þurfum við að ná hallanum verulega niður, um 100 milljarða kr., og það er stórt og mikið viðfangsefni. Menn þurfa að svara því þegar þeir koma með hugmyndir um að auka útgjöld með einhverjum hætti eins og hér, að skila inn fullum persónuafslætti við þessar aðstæður, hvernig á þá að ná í þær fjárhæðir sem við þurfum að fá til að ná niður hallanum. (Gripið fram í.) Við höfum verið á fundi með aðilum að stöðugleikasáttmálanum þar sem þetta atriði var rætt og við sitjum þessa dagana (Forseti hringir.) yfir því hvernig við getum farið í m.a. þetta mál. Ég get ekki svarað því hér og nú hvort það muni ganga en við erum að skoða leiðir til að, a.m.k. að einhverju leyti, (Forseti hringir.) geta skilað persónuafslætti til þeirra sem lægst hafa launin.