138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

persónukjör.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það liggur á að fá niðurstöðu í þetta mál og ég lagði mikla áherslu á það á þinginu í sumar að við mundum ljúka því og fá niðurstöðu í það. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að sveitarstjórnarkosningar eru fram undan og menn eru að undirbúa sig undir það hvort þeir fara í prófkjör eða niðurstaðan verði að fara í þetta persónukjör.

Ég held að það eigi við um alla flokka að það eru skiptar skoðanir í þessu máli nema þá helst í Hreyfingunni. (Gripið fram í.) Þetta er mál sem ég legg mikla áherslu á. Ég tel að það sé til framfara að koma á þessari leið, að það sé hægt að fara í persónukjör, en málið er í höndum þingsins og það er þess að afgreiða það.

Mér var kunnugt um að skiptar skoðanir voru hjá Vinstri grænum eins og hv. þingmaður nefnir, eins og í hans eigin flokki að því ég best veit og í öllum flokkum. Ég tel að menn verði að hraða þessu máli og fá það hingað inn til afgreiðslu þannig að úr því fáist skorið hvort fara eigi í þetta eða ekki. Ein leiðin sem menn hafa nefnt í þessu sambandi og mér finnst vel koma til greina er að einhvers konar tilraunasveitarfélög prófi að fara þessa persónukjörsleið. Það er almennur vilji fyrir því úti í samfélaginu held ég, miklu meiri en hér inni, að fara þessa leið varðandi persónukjör og þetta er leið sem ég hef talað fyrir í mörg ár.

Eins og ég segi, þetta mál er ekki þess eðlis að það liggi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Um það eru jafnvel skiptar skoðanir innan flokkanna og þannig liggur þetta mál bara en ég skora á hv. allsherjarnefnd að afgreiða málið út sem fyrst þannig að við fáum niðurstöðu í það.