138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[12:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína stuttu og snörpu ræðu. Við erum ekkert búin að festa okkur við prósentutölur. Ég held að þeim mun lægri sem prósentutalan er þeim mun betra, einfaldlega út af því að ég hef mikla reynslu af því að reyna að fá fólk til að skrifa undir ýmislegt er varðar þjóðarhag og það er hægara sagt en gert að fá fólk til að taka þátt í áskorunum. Ég held að prósentutalan hafi verið höfð 10% til þess m.a. að það sé auðvelt að reikna út hvað það eru margir kjörbærir Íslendingar, en ég verð að segja að ég hlakka til að sjá hvernig þetta kemur út í allsherjarnefnd.

Ég hef spurningu til hv. þingmanns. Ein leið til að styrkja innviði þingsins er að taka á máli sem mér skilst að hafi verið mikið rætt meðal þingmanna á þinginu í áratugi, þessi svokallaði þingmálahali sem skorið er á, sem þýðir að það þarf að taka mál upp aftur og aftur og aftur, sérstaklega þingmannamál, hvort heldur það eru þingmenn í stjórn eða stjórnarandstöðu. Hefur hv. þingmaður áhuga á að beita sér fyrir því að þetta verði lagfært og hefur hv. þingmaður einhverjar upplýsingar um eða innsæi í af hverju þetta er svona?