138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[12:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já er svarið, ég vil beita mér fyrir því að þetta verði lagfært og það er kannski bara eitt af þeim atriðum sem ég gleymdi að koma inn á í ræðu minni áðan. Það er í rauninni sorglegt hversu fá þingmál almennra þingmanna eru tekin fyrir. Ef ég man það rétt var ekkert þingmál stjórnarandstöðuflokkanna tekið fyrir á sumarþingi sem er einsdæmi en sýnir kannski að ríkisstjórnin sem er nú starfandi ætlar sér að fara í nákvæmlega sömu hjólför og fyrri ríkisstjórnir. Jafnvel þó að minn flokkur hafi átt þar sæti tel ég mjög brýnt að við lagfærum þetta og ég vil beita mér fyrir því.

Varðandi prósentuhlutfallið er ég sammála, ég held að menn ættu ekki að óttast það að fá mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég minnist orða hæstv. fjármálaráðherra en eitt sinn sagði hann að málflutningur þeirra sem héldu fram að einstaka mál væru of flókin fyrir þjóðina væri hjáróma. Nú er hann þeirrar skoðunar að Icesave-málið sé of flókið fyrir þjóðina og vill ekki að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu en ég lagði einmitt fram þingsályktunartillögu þess efnis sem var dyggilega studd af m.a. þingmönnum Hreyfingarinnar og ber að þakka fyrir það.

Af hverju hefur þetta verið svona? Ég held að þetta snúist kannski um að þeir sem eru við stjórnvölinn á hverjum tíma, eins og hefur sýnt sig að undanförnu, vilja ekki missa völdin frá sér svo að við segjum það bara hreint og beint. Þetta endurspeglast sérstaklega í Icesave-málinu þar sem menn eru algjörlega kengbeygðir til þess að fara frá sannfæringu sinni bara til þess eins að ríkisstjórnin lifi. (Gripið fram í.)