138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[12:07]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim sem hafa talað hér um þetta mál í dag. Það var flutt hér í sumar og það var talað um það í vinsemd af hálfu allra sem um það fjölluðu og það sama hefur verið gert hér í dag. Þó að menn hafi að sjálfsögðu skoðanir á málinu hafa menn ekki talað gegn því og vilja greinilega skoða það. Það er greinilegur áhugi meðal þingmanna, heyri ég, á að mál af þessum toga nái framgangi hér á þinginu og það er gott að heyra.

Tæpt hefur verið á stöku atriðum, m.a. þessu 10% lágmarki, og ég tek undir það sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði, að þó að þetta hlutfall yrði lækkað og við fengjum í staðinn hugsanlega oftar þjóðaratkvæðagreiðslur er ekkert athugavert við það. Þar er ekkert að hræðast, það er bara hið besta mál.

Mér fannst áhugaverð athugasemd hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um að 1/3 hluti þingmanna í Danmörku hefði vald varðandi eingöngu lagafrumvörp. Það er nokkuð sem mér hefur yfirsést en það er áhugaverður punktur að þar leggja þingmenn þá ekki til þjóðaratkvæðagreiðslur um mál sem eru einhvers staðar utan þingsins. Það er kannski margt til í því.

Hv. þingmaður fjallaði jafnframt um að undanskilja ýmis efnahagsmál í þjóðaratkvæðagreiðslum og það er rétt að reglubundnar afgreiðslur þingsins t.d. á fjárlögum falla ekki vel að þjóðaratkvæðagreiðslum. Einstakar aðgerðir í efnahagsmálum gera það ekki heldur. Í framhaldi af því sem gerst hefur á Íslandi undanfarið ár hef ég velt mikið fyrir mér einmitt málum eins og t.d. Icesave, hvort það sé tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er einfaldlega beggja blands með það, þetta er risastórt mál. Ríkisstjórnin hefur axlað pólitíska ábyrgð á því að koma því í gegnum þingið af fullum krafti. Það er hins vegar líka verið að skuldbinda fólk til áratuga fram í tímann og þá er spurning hvort það sé eðlilegt og réttmætt að þjóðin sjálf fái að segja eitthvað til um það í beinni kosningu.

Ég tek einnig undir það sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði og jafnframt hv. þm. Birgitta Jónsdóttir um umbætur á þessu svokallaða þinghalaklippingardæmi. Það er rétt að það komi fram að í forsætisnefnd hefur verið viðruð sú skoðun að þessu verði breytt og forsætisnefnd var sammála á fundi úti í Viðey um að breyta þessu þannig að þingmál falli ekki lengur niður á milli þinga nema þegar kosningar verða á milli. Það þýðir einfaldlega að öll þingmál munu fá þinglega meðferð og það er eðlilegt, þingræðislegt og lýðræðislegt. Þau standa þá og falla í þinginu en stjórnarflokkum hvers tíma verður ekki gert kleift að láta mál daga uppi í nefndum árum saman.

Ég er einnig hlynntur frekari lýðræðisumbótum. Ég tel að hér eigi að gera breytingar á kjördæmaskipaninni þegar vel viðrar, það er fráleitt að ráðherra frá Siglufirði skuli jafnframt vera þingmaður almennings á Djúpavogi í sama kjördæminu, Djúpivogur er nánast eins lagt í burtu frá Siglufirði og hægt er að komast á Íslandi sama í hvora áttina er farið. Það er ekki neitt eðlilegt kerfi í kjördæmaskipaninni eins og hún er í dag og hún er sett upp með það í huga að halda ákveðnu jafnvægi milli landshluta. Þetta er nokkuð sem ég tel að þurfi skoða raunhæft, einnig sveitarstjórnir og fjöldi sveitarstjórnarmanna.

Svo er náttúrlega stóra málið sem við bíðum öll eftir, viljum taka þátt í og viljum vanda okkur, stjórnlagaþingið. Að mínu mati er mjög brýnt að hér verði stofnað til stjórnlagaþings en það er alls ekkert sama með hvaða hætti það verður. Það þarf að vanda vel til þess og skoða það vel, og þær tillögur sem fram hafa komið af hálfu forsætisráðherra í því efni þarfnast að mínu viti mikilla breytinga. Vonandi verður ríkisstjórnin opin fyrir tillögum um það mál.

Varðandi þetta mál um þjóðaratkvæðagreiðslur þakka ég viðtökurnar á því og vona að það fái skjótan og fínan framgang í allsherjarnefnd og vandaða umfjöllun þar.