138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

23. mál
[12:12]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Guðbjartur Hannesson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólína Þorvarðardóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta áætlun um að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Sérstaklega verði hugað að möguleikum á aukinni raforkuvinnslu á Vestfjörðum, svo sem með byggingu Hvalárvirkjunar og stækkun Mjólkárvirkjunar, auk annarra virkjunarkosta.“

Þessi tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en komst þá ekki á dagskrá og er þess vegna endurflutt.

Það fer ekkert á milli mála að það vantar mjög mikið á að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sé viðunandi. Þetta afleita ástand stendur atvinnulífinu fyrir þrifum, það skapar mikinn kostnað fyrir atvinnulíf og heimili, veldur óþægindum í heimilisrekstri og daglegu lífi fólks og, sem ekki skiptir minnstu máli, er mikill þrándur í götu þess að hægt sé að byggja upp ný atvinnutækifæri á Vestfjörðum. Í raun og veru er ekki eftir neinu að bíða, þetta slæma ástand er staðreynd og það liggja fyrir gögn um það hvaða kostir standa til boða. Til dæmis kom í mars sl. skýrsla frá Landsneti um bætt afhendingaröryggi á Vestfjörðum og þar er þessum kostum öllum saman lýst og dregnar fram upplýsingar um hið slæma ástand. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Áreiðanleiki afhendingar frá flutningskerfi Landsnets er lægstur á Vestfjörðum. Meginástæða þess er einföld tenging Vestfjarða við flutningskerfið, frá Hrútatungu til Mjólkár. Línurnar sem um ræðir eru Glerárskógalína 1 (GL1), Geiradalslína 1 (GD1) og Mjólkárlína 1 (MJ1). Þessu til viðbótar eru truflanir á 66 kV flutningslínum Landsnets á Vestfjörðum.“

Síðan segir síðar í skýrslunni:

„Meginhluti kostnaðar sem straumleysi veldur liggur í þeim samfélagslega kostnaði sem fylgir straumleysi. Meðaltal samfélagslegs kostnaðar vegna straumleysis árin 2002–2008, að teknu tilliti til keyrslu varaafls, á Vestfjörðum er 84 millj. kr./ári. Meðalkostnaður Landsnets, vegna tapaðs flutnings og keyrslu varaafls, er hins vegar ekki nema 10,4 millj. kr./ári miðað við sama tímabil.“

Síðan eru í skýrslunni dregnir fram nokkrir kostir sem gætu verið til staðar til að bæta úr þessu afleita ástandi.

Í fyrsta lagi er nefnt að það megi endurbæta varaafl með ýmsum hætti, t.d. með því að setja upp fleiri dísilstöðvar. Það mætti styrkja flutningskerfið með tvöföldun Vesturlínu og síðan, sem er áhugaverðasta leiðin í þessum efnum, er uppbygging á orkuframleiðslu með virkjunum á Vestfjörðum. Þar er sérstaklega nefnd gerð Hvalárvirkjunar, líka stækkun Mjólkárvirkjunar og ýmsir aðrir virkjunarmöguleikar, svo sem Hestfjarðarvirkjun í Ísafjarðardjúpi.

Það er engin spurning um það að þegar þessir kostir eru bornir saman er ekkert sem nær jafn vel markmiðum okkar og það að byggja upp orkuframleiðslu í héraðinu. Endurbætur á varaafli með dísilrafstöðvum væri skítaredding sem yrði aldrei fullnægjandi leið fyrir Vestfirðinga og þjónaði alls ekki framtíðarhagsmunum svæðisins. Það mætti horfa á það sem skammtímalausn meðan unnið er að öðrum lausnum en alls ekki sem neina framtíðarlausn. Tvöföldun Vesturlínu er líka verulega kostnaðarsöm og skilar Landsneti ekki neinum viðbótartekjum, sem er líka áhugavert að velta fyrir sér.

Hins vegar hafa farið fram á vegum Orkubús Vestfjarða miklar athuganir á mögulegum virkjunarkostum á Vestfjörðum. Heilmikill kostnaður hefur verið lagður í þetta og miklar upplýsingar dregnar fram. Hins vegar þarf að vinna að frekari rannsóknum og það er mikilvægt að missa engan tíma því að hluti af þeim rannsóknum er þannig að hann verður að fara fram á tilteknum árstímum, sérstaklega yfir sumarmánuðina, og þess vegna er afar brýnt að grípa til aðgerða sem allra fyrst svo hægt sé að leysa þennan mikla vanda til frambúðar.

Ég vil líka nefna það að fyrirtæki sem heitir VesturVerk og starfar á Ísafirði hefur aflað sér virkjunarheimilda vegna mögulegrar Hvalárvirkjunar en framvinda málsins mun ráðast mikið af viðbrögðum stjórnvalda. Eins og segir í greinargerð er Hvalárvirkjun eini nýi kosturinn sem eins og nú standa sakir væri hægt að hefja framkvæmdir við strax án ágreinings um vatnsréttindi, land eða annað það sem snýr að slíkri framkvæmd.

Vegna þess að alltaf þegar nefndar eru virkjanir fara að hringja viðvörunarbjöllur í kollum ýmissa sem hafa áhyggjur af virkjunarframkvæmdum vil ég í þessu sambandi sérstaklega nefna að þessi virkjun hefur fengið alveg sérstakt heilbrigðisvottorð frá hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem kvað upp úr um það á sínum tíma í umræðum í þinginu, sem hægt væri að fletta upp, að Hvalárvirkjun væri mjög álitlegur kostur sem hæstv. ráðherra á þeim tíma mælti með. Efast ég ekki um að hann hefur enn þá sömu skoðun í þessum efnum.

Það er hins vegar alveg ljóst að til þess að hægt sé að ráðast í gerð Hvalárvirkjunar þarf að fella niður tengigjald hennar vegna. Ísafjarðarbær með sameiginlegri ályktun allra fulltrúa í bæjarstjórninni, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Orkubú Vestfjarða hafa sent sameiginlega áskorun til ríkisstjórnarinnar um að tengigjöld vegna Hvalárvirkjunar verði greidd úr ríkissjóði og er vísað til sérstaks fylgiskjals sem fylgir með þessari þingsályktunartillögu því til sannindamerkis.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur líka sent bréf í þessa veru og Ísafjarðarbær sent endurskoðunarnefnd um raforkulög erindi þess efnis að tekið verði tillit til aðstæðna á Vestfjörðum. Það er talið að tengigjöld vegna virkjunarinnar gætu numið 2,3–3,3 milljörðum kr. samkvæmt skýrslu Landsnets og það er ljóst að þetta veldur því að hagkvæmni virkjunarinnar stendur og fellur með þessu tengigjaldi.

Menn geta auðvitað velt fyrir sér hvort það sé sanngjarnt að fella niður þetta tengigjald en þá vil ég segja að það að byggja upp raforkuöryggi fyrir heilan landshluta er hluti af þeim innviðum sem við ætlumst til að séu til staðar í samfélagi okkar, hluti af því að svæði eins og Vestfirðir geti staðið jafnfætis í samkeppni við aðra landshluta sem hafa fengið eðlilega uppbyggingu á raforkuöryggi sínu og geta þess vegna keppt um nýja iðnaðar- og atvinnukosti. Tökum dæmi af hinum svokölluðu gagnaverum sem nú er mikið rætt um. Ein forsendan fyrir því er að hér sé sæmilegt raforkuöryggi. Meðan það er ekki til staðar er tómt mál að tala um að reyna að laða slíka starfsemi vestur á Vestfirði.

Þetta á líka við um margs konar aðra atvinnustarfsemi. Sjávarútvegurinn okkar er hátæknistarfsemi sem stendur og fellur með orkunni og raforkuöryggi fyrir sjávarútveginn er einn meginþátturinn í starfsöryggi slíkrar atvinnugreinar sem er og verður burðarásinn um ókomna tíð í atvinnumálum á Vestfjörðum. Það eru ýmis önnur fyrirtæki sem hafa sprottið upp af nálægðinni við sjávarútveginn. Þá er nærtækast að nefna hið raunverulega heimsþekkta fyrirtæki á sínu sviði, 3X Technology, sem hefur oft orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna skorts á raforkuöryggi og þrátt fyrir góðan vilja Orkubús Vestfjarða og frábært starf starfsmanna þar hefur afhendingaröryggið því miður ekki verið nægjanlegt.

Þess vegna er mjög mikið í húfi fyrir framtíð Vestfjarða og hér er ég ekki eingöngu að tala um atvinnulífið sem þar er núna, heldur eins og ég ítrekaði hér áðan, það er ekki síður ástæða til að horfa á þá möguleika sem eru til staðar á Vestfjörðum og það er alveg um tómt mál að tala að okkur takist að byggja fjölbreyttara atvinnulíf, setja fleiri stoðir undir atvinnustarfsemina og þar með byggðina á Vestfjörðum nema að þessari grunnþörf sem við ætlumst til að sé sinnt sé sinnt mannsæmandi.

Ég tók þessi mál upp sem oftar á Alþingi síðasta vetur og ræddi þau þá m.a. við þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, hvort hann sæi möguleika á því að hið opinbera, ríkið, kæmi með einhverjum hætti að uppbyggingu á Hvalárvirkjun.

Í umræðunni sem fram fór 18. mars sl. sagði ráðherra, og ég vil gera þau orð að mínum, með leyfi forseta:

„Að því er snýr beint að aðkomu ríkisins að Hvalárvirkjun þá hef ég sagt, og ég ítreka það hér, að ég tel að það komi til álita að styðja sérstaklega við gerð virkjunarinnar að því marki sem lög og fjárhagur ríkisins heimila. En ástæðan fyrir þessu er í reynd þau rök sem komu fram hjá hv. þingmanni [þ.e. Einari K. Guðfinnssyni] í framsögu hans fyrir fyrirspurninni. Hún er sú að í Hvalárvirkjun felst bæði ábati fyrir Landsnet, sem meta má á 500 millj. kr., og sömuleiðis samfélagslegur ábati, sem er metinn á yfir 2 milljarða kr. …“ — Ég undirstrika að þetta eru orð hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra. — „… og það verður auðvitað að bera saman aðra kosti sem eru í þessari stöðu. Af því dreg ég þá ályktun að sá skynsamlegi kostur hljóti að koma til greina að Hvalárvirkjun njóti að minnsta kosti góðs af þeim ábata sem mundi fylgja henni sjálfri. Þá verður í þessum vangaveltum að hafa það í huga að framleiðsla og sala á raforku er samkeppnisstarfsemi þannig að það setur því ákveðnar skorður hversu langt er hægt að ganga í beinum stuðningi við virkjunina.“

Ég ætla ekki að lesa frekari tilvitnanir í ræðu hæstv. þáverandi ráðherra en vísa til greinargerðar með tillögunni í þessum efnum.

Af orðum hæstv. ráðherra og af þeim bréfum sem fyrir liggja frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, samtökum sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, og eru sameiginleg áskorun til ríkisstjórnarinnar frá fulltrúum allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn Ísafjarðar, Fjórðungssambandsins og Orkubús Vestfjarða liggur fyrir að það er mjög ríkur pólitískur vilji til að taka á þessum málum. Ég hygg að flestir sjái sanngirnisrökin sem eru á bak við þessa tillögu.

Fram hefur komið mjög eindregin ósk frá heimamönnum á Vestfjörðum um að tafarlaust verði bætt úr raforkuafhendingaröryggi á Vestfjörðum. Þessar samþykktir sem ég vísa til eru til sannindamerkis um það.

Ég fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra hefur í framhaldi af þessari umræðu sem m.a. hefur sprottið af tillögu okkar, sex þingmanna úr Norðvesturkjördæmi, og þeirri umræðu sem hefur átt sér stað á vettvangi heimamanna á Vestfjörðum skipað ráðgjafahóp til að fara yfir fyrirliggjandi tillögur Landsnets um leiðir til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og ég vísaði til þeirra tillagna. Hópnum er líka falið að leggja mat á til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að bæta samkeppnisstöðu Vestfjarða með tilliti til möguleika svæðisins til atvinnuuppbyggingar í orkufrekum iðnaði.

Nefndina skipar ágætisfólk sem ég hef fulla trú á að geti unnið vel að þessu máli. Veikleikinn í þessu starfi er sá að ekki er lagt til, sem kemur hins vegar fram í tillögu okkar sexmenninganna úr þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, að setja upp tímasetta áætlun í þessum efnum. Ég hygg að það sé mikið lykilatriði í þessu máli að niðurstaðan af þeim athugunum sem fara fram verði sú að sett verði upp tímasett áætlun því að við þekkjum kostina sem eru til staðar. Nú er komið að því að við reynum að ná einhverri pólitískri niðurstöðu í þessari umræðu og þess vegna mundi ég vilja nota þennan vettvang úr ræðustól Alþingis til að beina því til nefndarinnar að hún reyni í störfum sínum að vinna þetta mál þannig að skarpari tillögur liggi fyrir en hingað til hafa verið gerðar, að undanskilinni þeirri tillögu sem við erum hér að ræða, um það hvernig eigi að vinna þetta mál nákvæmlega.

Grunnvinnan hefur verið unnin, við þekkjum málin, við vitum hvaða kostir standa til boða. Eins og ég nefndi hefur mikil vinna verið unnin af hálfu Orkubús Vestfjarða alveg sérstaklega og auðvitað annarra aðila eins og Orkustofnunar þáverandi, Landsvirkjunar o.fl., og síðan hefur hið nýja fyrirtæki VesturVerk, sem ég nefndi líka áðan, látið til sín taka. Nú er staðan einfaldlega sú að við höfum fyrir okkur að mestu leyti þær upplýsingar sem fyrir liggja. Vonandi leiðir starf þessarar nefndar til þess að þessir kostir verði skýrari fyrir okkur og það sé þess vegna hægt að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir sem þarf að taka. Ég bind líka vonir við þessa nefnd sem er leidd af orkumálastjóra, Guðna A. Jóhannessyni, sem auk alls annars hefur þá góðu kosti að vera ættaður frá Súgandafirði. Það styrkir málið og gerir starfið þess eðlis að við höfum meiri trú á því en ella svo ég slái því fram í gamansömum tón en öllu gamni fylgir að sjálfsögðu mikil alvara.

Virðulegi forseti. Ég tel að þær viðtökur sem þetta mál hefur fengið á fyrri stigum, til að mynda af hálfu hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra þegar því var hreyft 18. mars sem ég nefndi, gefi okkur fyrirheit um að á þessum málum verði tekið af fullri alvöru, heiðarleik og einurð og ég hef ekki ástæðu til að ætla nokkuð annað. Hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra var og er mikill áhugamaður um þetta og við sem stöndum að þessari tillögu komum úr þremur ólíkum stjórnmálaflokkum og höfum kannski ólík viðhorf að mörgu leyti en í þessum efnum höfum við náð vel saman um þetta mál sem er auðvitað langt hafið yfir alla pólitíska flokkadrætti, ef þannig mætti að orði komast.

Hér er bara spurningin um að þingið komist að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að styðja við uppbyggingu af þessu tagi með því að fella niður tengigjöldin eða bæta þau upp með öðrum hætti þannig að hægt verði að tryggja raforkuafhendingaröryggi. Æskilegasti kosturinn er klárlega uppbygging raforkuframleiðslunnar á Vestfjörðum sjálfum í góðri sátt við náttúruna og ég tel að þess vegna væri mjög mikilvægt að Alþingi mundi afgreiða þessa tillögu sem þannig er til komin og hefur þann tilgang einan að búa til eðlilega innviði fyrir Vestfirði í mikilvægum málaflokki sem mun ráða miklu um það hvernig okkur mun takast að byggja upp nýja atvinnustarfsemi, setja fleiri stoðir undir atvinnulífið og gera þannig byggðina öflugri til þess að takast á við nýja tíma á komandi árum.