138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarflokkarnir hafa ekkert gert annað en að innleiða óvissu í atvinnumálum, oft í nafni umhverfisverndar. Ég ætla að taka dæmi um það. Síðasta sumar hafði Alcoa tekið frá fjármagn til að byggja upp álver á Bakka við Húsavík. (Iðnrh.: Það er ekki komin ákvörðun. …) (MSch: Þeir voru ekki tilbúnir.) Þegar þáverandi umhverfisráðherra tók ákvörðun um að setja Þeistareyki og Bakka í tvöfalt umhverfismat, eða réttara sagt sameiginlegt umhverfismat, gerðist það í stjórn Alcoa að peningarnir sem höfðu verið teknir frá fyrir Bakka voru færðir í álver sem var byrjað að byggja í Sádi-Arabíu.

Álver spúir út í kringum 500.000 tonnum af CO2 á ári. Álverið á Bakka hefði gert það. Það sem gerðist við það að færa framkvæmdina suður til Sádi-Arabíu þar sem rafmagnið er framleitt með gasi var það að við framleiðsluna eru ekki eingöngu 500.000 tonn sem fara út, heldur 1 milljón tonna. Framlag þáverandi hæstv. umhverfisráðherra til umhverfismála í heiminum eru 500.000 tonn af CO2 á ári — þangað til það álver lokar. Þetta lýsir mjög vel þeirri skammsýni og hugsunarleysi og yfirlitsleysi sem einkennir þessa stjórnarflokka. Skattlagningin á orku og auðlindir (Forseti hringir.) sem núna er boðuð gerir nákvæmlega það sama. Hún hleypir óvissu (Forseti hringir.) í ákvarðanir fjárfesta sem leiðir til þess að þeir muni ekki fjárfesta. (Forseti hringir.) Þetta er hugsunarlaus ríkisstjórn.