138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[14:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að mótmæla þeirri fundarstjórn sem er haldin hér af hæstv. forseta, að ég fái ekki að bera af mér sakir. Það var fullyrt hér í umræðunni að ég hefði beinlínis logið.

Hvernig getur það verið þegar ég vísa til þess að umboðsmaður Alþingis kvað upp þann úrskurð að úrskurður umhverfisráðherra, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hafi verið ólöglegur. Að halda því fram að af því að þetta mál hafi ekki farið til dómstóla fari ég með rangt mál — ég óska þess að þetta verði bara leiðrétt hér með. Heimamenn ákváðu að fara ekki með málið fyrir dómstóla vegna þess að þeir töldu að það mundi skaða málið frekar en að bæta það, jafnvel þó að þeir væru ansi vissir um það að þeir mundu vinna það mál.

Ég er löglærður, ég met mjög mikils þá menntun sem ég hef. Ég vísa til þess sem umboðsmaður Alþingis hefur sagt og hvet hvern þann (Forseti hringir.) sem vill kynna sér málið að lesa þann úrskurð.