138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um það að við séum hér þiggjendur frá Brussel langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé að leggja til að við segjum upp EES-samningnum. Eða var hann eingöngu að leggja áherslu á andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu? Mér heyrðist hv. þingmaður leggja það til að við segðum okkur frá EES-samstarfinu sem mér þykir miður og kannski fulllangt gengið.

Markmiðið með því að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu er að þá loksins fáum við sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar sem við gerum ekki í dag í gegnum EES-samninginn. Þess vegna tel ég það eðlilegt næsta skref að við göngum þar inn og verðum þar fullir aðilar.

Hv. þingmaður spyr mig mikilvægrar spurningar, hvert mat mitt sé á framvindu þessa verkefnis og hvað ég telji að hafi tafið það. Það er ekkert launungarmál að heldur hefur hægst á lánsfjármögnun síðasta árið, eins og hv. þingmaður veit, út af hinu erfiða efnahagsástandi. Það hefur sett strik í reikninginn en með undirritun fjárfestingarsamningsins í sumar var þessari framkvæmd gefið fast land undir fætur gagnvart fjármögnuninni þannig að það hjálpaði til við að núna hefur verið skrifað undir svokallaða viljayfirlýsingu við nokkrar fjármögnunarstofnanir sem ætla að vinna með þessu fyrirtæki að fjármögnun verkefnisins. Eftir því er hins vegar enn beðið og helstu vandkvæðin sem ég sé á málinu eru fjármögnun á orkuframkvæmdum, aðallega hjá öðrum aðilanum sem samningar hafa verið gerðir við og þá suður með sjó, HS Orku, og sömuleiðis fjármögnun verkefnisins sjálfs.

Hins vegar tel ég að þessum verkefnum eigi eftir að vinda vel fram og vonandi eigum við eftir að sjá framkvæmdir fara af stað næsta sumar þó að til skemmri tíma hafi á móti blásið.