138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:23]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum komin út fyrir efnið í þessum andsvörum og það væri gaman að taka frekar umræðuna á eftir almennt. Hv. þingmaður fagnaði fjárfestingarsamningnum og sagði: Þótt fyrr hefði verið. Mér finnst það afar merkilegt vegna þess að á bak við þetta er ákveðinn ferill sem verið hefur í gangi í tíð fyrri ríkisstjórna. Það var Samfylkingin sem keyrði þetta mál hér í gegn.

Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn varðandi nýfjárfestingar, af því að hv. þingmaður fjallar hér um þær, sem eru okkur gríðarlega mikilvægar og við róum að því öllum árum að vera samkeppnishæf hvað þær varðar. Það gerum við með því að vinna hratt og örugglega að ríkisfjármálunum og þar á meðal skattheimtunni og samdrættinum til þess að það liggi ljóst fyrir og ég hef sagt að það er ákveðin óvissa í því sem við viljum ljúka sem fyrst. Að því er unnið.

Jafnframt erum við líka að vinna að því, út af orðum hv. þingmanns, „þótt fyrr hefði verið“, að hraða gerð svona fjárfestingarsamninga. Það gerum við með því að fara út úr þessu ferli sem var og er til staðar og Helguvíkurverkefnið fór í gegnum þar sem þarf fyrst að fara í samningaviðræður. Í öðru lagi þarf síðan málið að fara í gegnum þingið í formi lagafrumvarps og síðan í þriðja lagi þarf það að fara fyrir ESA og hljóta samþykki þar. Svo erum við nú enn komin með málið vegna breytinga eftir allan þennan feril.

Þessu viljum við breyta til að gera Ísland samkeppnishæft og aðlaðandi þannig að það komi rammalöggjöf um ívilnanir hér á landi sem byggi þá á stærð fjárfestinganna. Þá erum við komin með skýra sýn á það og þá eru líka fjárfestarnir komnir með niður á blað nákvæmlega hvað þeim býðst hér á landi hvað það varðar. Það verður gríðarleg framför, virðulegi forseti.