138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Margt af því sem hæstv. iðnaðarráðherra segir hér hljómar afskaplega vel, eins og fagur fuglasöngur í mínum eyrum. Ég er mjög sammála mörgu því sem hún hefur sagt, t.d. að við eigum ekki að hafa fordóma í garð einstakra atvinnugreina og við eigum að hafa hér fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á mörgum stoðum, það er um að gera, gerum það. Tökum líka vel á móti þeim verkefnum sem eru í burðarliðnum, ýmist komin af stað eða á teikniborðinu, og reynum að gera aðstæður með þeim hætti að það sé sem best fyrir fyrirtæki að byggja upp atvinnustarfsemi á Íslandi, það er það sem við þurfum á að halda, það er nákvæmlega það sem við þurfum á að halda.

Vandi aðila sem eru að glíma við íslenska stjórnkerfið í dag og eru að velta hlutunum fyrir sér er kannski akkúrat sá að menn vita ekki alveg í hvaða átt er verið að róa. Aðstæðurnar eru að því leyti mjög óvissar að mikilvægir þættir, bæði pólitískir, stjórnsýslulegir og skattalegir, eru í óvissu og enn þá í uppnámi.

Varðandi bjartsýni hæstv. iðnaðarráðherra velti ég því fyrir mér og hæstv. iðnaðarráðherra getur kannski svarað því í síðara svari sínu hvort þær áhyggjur sem birtast okkur og við heyrum í fjölmiðlum á hverjum einasta degi, t.d. frá Suðurnesjamönnum af uppbyggingunni þar suður frá, séu algjörlega tilefnislausar. Eru þær algjörlega byggðar á misskilningi? Eru fyrirtæki og verkalýðsfélög á Suðurnesjum algjörlega á villigötum, eru sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum algjörlega á villigötum í þessum efnum? Við heyrðum það síðast að nú ætli menn að fara í Keflavíkurgöngu til þess að vekja athygli á atvinnumálum á Suðurnesjum. Í því birtast gríðarlegar áhyggjur. (Forseti hringir.) Hæstv. iðnaðarráðherra virðist ekki deila þeim áhyggjum og ég velti fyrir hvort hæstv. ráðherra geti skýrt að hvaða leyti Suðurnesjamenn eru að misskilja stöðuna.