138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get eiginlega ekki annað en kvatt mér hljóðs í þessari umræðu og það geri ég sem stjórnarþingmaður í framsækinni, rauðgrænni ríkisstjórn hér á landi sem hefur það á stefnuskrá sinni að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti fyrir umhverfisvænan iðnað. Ég geri ráð fyrir því að við hv. þingmaður hittumst á morgun á sprotaþingi þar sem er fjöldinn allur af fyrirtækjum og frumkvöðlum sem eru að byggja upp atvinnustarfsemi og mjög áhugaverð störf fyrir Íslendinga á komandi árum. Þessir aðilar eiga það sammerkt að álfyrirtæki vinna gegn hagsmunum þeirra því að það eru fyrirtæki sem eru mjög frek í hagkerfi okkar. Nú eru mjög óvenjulegar aðstæður en þær eru tímabundnar og við megum ekki eyðileggja möguleika okkar til framtíðar bara út af skammtímahagsmunum, þótt ég geri ekki lítið úr þessum alvarlegu aðstæðum.

Af því að mér finnst trú hv. þingmanns á erlendum stórfyrirtækjum alveg með ólíkindum, spyr ég hv. þingmann: Er það þannig að sjálfstæðismenn trúi ekki á einkaframtak íslenskra fyrirtækja og frumkvöðla, að við verðum að sækja erlend stórfyrirtæki til að geta átt mannsæmandi samfélag? Ég tala ekki gegn erlendum fjárfestingum, en fyrr má rota en dauðrota. Er það svo að hv. þingmaður og sjálfstæðismaður trúi ekki á einkaframtak íslenskra athafnamanna og -kvenna?