138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að það er ekki stefna Vinstri grænna að ganga í Evrópusambandið til að hafa meiri áhrif á tilskipanir þess. Ég vil jafnframt þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir skemmtilega ræðu og vil ég spyrja hann að því hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki áttað sig á því fyrir 15 árum, þegar EES-samningurinn var samþykktur, að hann fæli í sér aukin viðskipti á ákveðnu svæði, þ.e. á þessu EES-svæði, á sama tíma og viðskipti við lönd utan svæðisins yrðu að einhverju leyti takmörkuð. Það er einmitt það sem felst í svæðisbundnum samningum af þessu tagi. Það voru Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn sem samþykktu þann samning og grétu það margir sem nú tilheyra þingflokki Vinstri grænna.

Ég velti því fyrir mér hvort einhver stefnubreyting sé orðin hjá Sjálfstæðisflokknum varðandi EES-samninginn þegar í ræðustól kemur þingmaður sem ráðleggur að við förum ekki eftir dómum EFTA-dómstólsins eins og kveðið er á um í EES-samningnum og biður stjórnarliða um að ýta frumvarpinu út af borðinu, frumvarpi sem á einmitt að innleiða dóm sem hefur fallið og okkur ber að innleiða.