138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir orð þeirra sem hafa lýst þessu frumvarpi á þann veg að það gangi þvert gegn hagsmunum lands og þjóðar því það gerir það ekki. En hins vegar er það svo að oft fylgir böggull skammrifi og þetta er einn af þeim bögglum sem fylgir því skammrifi að vera með opinn og hindrunarlausan aðgang að stærsta markaði í heimi, innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Ég verð líka að gera athugasemd við að þetta sé liður í því að koma okkur inn í einhvers konar tollabandalag eða bak við einhverja tollmúra því að þetta hefur ekkert með tolla að gera. Þetta hefur nánast ekkert heldur með viðskipti við þróunarlönd að gera og hindrar á engan hátt möguleika þeirra á því að flytja út til Íslands eða eiga í viðskiptum við Ísland nema hvað það litla atriði snertir að þau geta ekki endurútflutt alþjóðlega merkjavöru til Íslands eða annarra landa Evrópska efnahagssvæðisins. En það er auðvitað ekki mjög vænleg atvinnugrein fyrir þá að byggja sína sókn til velferðar á að flytja sólgleraugu eða sólarolíu frá Evrópu og til baka aftur til Evrópu.

Hér togast á hagsmunir fyrirtækja og vissulega eru það oft stórfyrirtæki sem eiga verðmæt alþjóðleg vörumerki og vilja gera sem mest úr þeim með því að beita m.a. svokallaðri verðmismunun og það er alveg rétt að við Íslendingar eigum ekki mikið af slíkum fyrirtækjum þó að auðvitað eigi einhver íslensk fyrirtæki verðmæt vörumerki. Hins vegar togast á hagsmunir innflytjenda og neytenda af því að flytja inn sömu vörur frá löndum utan svæðisins þar sem þær hafa verið seldar við lægra verði.

Gott og vel. Það getur verið að hagsmunir okkar séu minni en meiri hvað varðar innflutninginn en ég held að þegar allt er skoðað, og sérstaklega það hversu gríðarlegir hagsmunir það eru fyrir Íslendinga, bæði hvað varðar innflutning og útflutning, að vera hluti af stærsta markaði í heimi þá held ég að það sé engin spurning að okkur beri og það séu okkar hagsmunir að samþykkja frumvarpið.