138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir andsvarið og mun taka upp í forsætisnefnd það sem hún nefndi.

Hvað varðar orð hennar um að við séum að verja hér meiri hagsmuni fyrir minni kann það að vera rétt í þessu máli. Mér finnst samt ástæða til að þingið velti því fyrir sér og skoði hvort einhver möguleiki sé á að fara aðra leið. Ef svo er á að kanna hana en ekki að segja já við þessu frumvarpi eins og það er hér og nú.

Ég sagði áðan, frú forseti, að þekkingu mína þryti á mögulegum lausnum ef Alþingi Íslendinga segði hugsanlega nei eða íhugaði að segja nei. Hvað varðar Samkeppniseftirlitið held ég að það sé löngu tímabært að það eftirlit, sem og allar aðrar stofnanir í þessu landi sem sinna eiga eftirliti, sé á einn eða annan hátt betur virkjað og mannað. Ef það kostar fjármuni verður einfaldlega að meta þar eins og hér hvort við verjum meiri hagsmuni eða minni þegar slíkar eftirlitsstofnanir skortir fé til að sinna því eftirlitshlutverki sem þeim ber samkvæmt lögum.