138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara af því að menn voru að ræða um morgunverð hefur hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir alltaf komið mér fyrir sjónir sem þingmaður sem fær sér hafragraut og lýsi í morgunverð [Hlátur í þingsal.] vegna þess að mér finnst hún alltaf mæla sköruglega og af krafti þegar hún kemur í pontu.

Ég vildi eiginlega bara þakka henni fyrir ræðuna. Mér fannst hún ramma ágætlega inn álitaefnin í þessu máli og ég hlakka til að dýpka ESB-umræðuna á komandi missirum með henni og öðrum þingmönnum. Um það erum við sammála að ESB er ekki gallalaust fyrirbæri.

Bara rétt að lokum, af því að hún minntist á agúrkurnar og tómatana, held ég t.d. að ef við teljum að bændurnir okkar framleiði hágæðavöru muni landbúnaðurinn í þessu landi eiga mjög góða tíma ef við göngum inn í ESB. Ég hlakka til að taka umræðu um það, kosti þess og galla, vegna þess að hafi menn trú á íslenskum landbúnaði held ég að stækkun markaðssvæðis hans geti haft gríðarleg sóknarfæri fyrir íslenska bændur. Þeir hafa nú aðgang að 0,06% af hinum stóra ESB-markaði sem er hinn íslenski markaður þannig að þar held ég að leynist mörg sóknarfæri.