138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var eiginlega dálítið fyndið sem fram kom hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram um hafragraut og lýsi. Ef við hugsum það og tökum það aðeins nær okkur getum við litið á það sem hluta af hinni íslensku þjóð, hluta af því sem hefur haldið í okkur lífi, í það minnsta lýsið, haldið í okkur lífi undanfarin ár og undanfarin árhundruð og skipt okkur meginmáli, innvortis, og til að lýsa upp heimkynni okkar og annað í þeim dúr.

Umræðan um Evrópusambandið, íslenskan landbúnað, gúrkur og tómata og fisk á kannski ekki við hér því að við erum ekki að ræða það, við erum að ræða vörumerki. Ég beini fyrirspurn minni til hv. þm. Magnúsar Orra Schrams: Er hann sem fulltrúi í viðskiptanefnd tilbúinn til þess að taka þetta frumvarp um vörumerki inn aftur, ræða betur og kanna hvort við höfum einhvern annan möguleika en að segja já?