138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp sem var jafnframt mælt fyrir á sumarþingi þó að ekki hafi náðst að afgreiða það mál þá. Ég fagna því nú því að ég lagði til ákveðnar breytingar á frumvarpinu sem því miður náðu ekki fram að ganga. Ég ætla því að freista þess, frú forseti, að leggja þessar breytingar til aftur og sjá hvort það gengur ekki betur núna. En ég tek fram að nefndin tók tillit til þessara athugasemda minna að því leyti að hún tók málið til athugunar þótt hún hafi ákveðið að breyta ekki frumvarpinu. Í megindráttum fagna ég þessu frumvarpi og tel að það sé af hinu góða og tek undir með hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur að það er sérlega ánægjulegt að það eigi að auka upplýsingagjöf um kynjahlutföll. Þá tel ég aðrar greinar frumvarpsins jafnframt brýn umbótamál.

En ég ætla hér að tala um 2. gr. frumvarpsins og endurtek þá tillögu mína að í stað þess að tala um að gætt skuli að kynjahlutföllum verði kveðið skýrt á um það að skylt skuli að skipa 40% fulltrúa af hvoru kyni í stjórnir hlutafélaga. Þetta er til samræmis við breytingar á jafnréttislögum frá 2008 þar sem sams konar ákvæði, þ.e. um 40% fulltrúa af hvoru kyni, var lögleitt vegna skipana í stjórnir opinberra hlutafélaga og hlutafélaga í eigu ríkis og sveitarfélaga. Fyrir því að reyna að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja vil ég nefna einna helst þrenn rök. Þau fyrstu eru réttlætisrök, það er bara eðlilegt að konur hafi sama tækifæri og sama aðgang og karlar að valda- og áhrifastöðum. Í öðru lagi getur maður sagt að fyrir þessu séu nytjarök sem koma þá í veg fyrir samfélagslegt tap sem verður þegar samfélagið nýtir ekki mannauð kvenna, hæfni og dugnað. Í þriðja lagi mætti segja að fyrir þessu væru áhætturök því að þetta ætti að vinna gegn þeirri klíkumyndun sem hefur heldur betur komið okkur á kaldan klaka á Íslandi í karlasamfélaginu í viðskiptalífinu. (VigH: Heyr, heyr.)

Við þurfum ekki að fara langt, við bara lítum til Noregs þaðan sem margt gott kemur þó að Norðmenn séu ekki í Evrópusambandinu — ég var tilneydd að bæta því við hér — [Hlátur í þingsal.] þar sem leitt var í lög árið 2004 að í stjórnum skyldu vera a.m.k. 40% hvors kynsins, að ekki hallaði á annað kynið meira en svo að það væru alltaf minnst 40% konur og 40% karlar. Þessi lög voru sett 2004 og þá skulum við hafa í huga að í norska Stórþinginu og jafnvel í viðskiptalífinu er andstaða við þetta því að það eru valdahagsmunir fyrir karla að missa ekki völdin í hendurnar á konum. Þá var talað um að þetta gæti dregið úr gæðum stjórnarstarfa, þetta mundi minnka áhuga fjárfesta og gæti leitt til þess að fyrirtæki flyttu höfuðstöðvar sínar til útlanda. Þetta átti að hafa mjög víðtæk og alvarleg áhrif á norskt atvinnulíf og viðskiptalíf, en nú hafa áhrifin af þessum breytingum verið metin. Ótti andstæðinga þessara lagabreytinga hefur aldeilis ekki átt við rök að styðjast, það hefur sýnt sig að menntunarstig stjórnarmanna í norskum hlutafélögum hefur aukist og það hefur orðið samhliða því sem konum fjölgaði úr 7% árið 2004 í rúmlega 40% árið 2009. Við getum sem sagt þvert á móti haldið því fram að þetta muni auka gæði stjórnarstarfa, og ekki veitir af.

Ég vil líka vitna í erlendar rannsóknir á hlutafélögum sem eru skráð á markað sem hafa sýnt að þau félög sem er stjórnað af konum eru að jafnaði með betri arðsemi.

Í Svíþjóð hefur Mona Sahlin, leiðtogi jafnaðarmanna, lofað því að ef þar verður rauðgræn ríkisstjórn eftir næstu kosningar, í september 2010, muni sú stjórn leiða í lög sambærilegt ákvæði á við það norska. Nú vill svo skemmtilega til að við erum hér með hina framsæknu rauðgrænu ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf.“

Ég tel þessa breytingartillögu mína algjörlega samræmast þessu ákvæði samstarfsyfirlýsingarinnar og sé ekki að okkur sé neitt að vanbúnaði að sýna róttækt að við meinum það sem við segjum, vinstri menn á Íslandi, þegar við segjum að við viljum leiða til öndvegis ný gildi, þar á meðal gildi kvenfrelsis.