138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[18:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að frumvarp sem á að stuðla að auknu gagnsæi hlutafélaga varðandi eignarhald, atkvæðisrétt og kynjahlutföll komi enn á ný inn í þingið til umfjöllunar en á sumarþinginu gafst okkur í viðskiptanefnd ekki tími til að klára málið. Ég vona að það gangi betur á þessu þingi að ljúka því. Ég tel að flestir geti verið sammála um að frumvarpið sé til bóta þó að deila megi um einstök efnisatriði þess. Í frumvarpinu er lögð sú skylda á stjórn hlutafélaga að gæta þess að hlutaskráin geymi ávallt réttar upplýsingar en margir, og þá sérstaklega fræðimenn, hafa kvartað yfir því að hlutaskráin hafi ekki verið nógu oft uppfærð af fyrirtækjum og því erfitt að átta sig á raunverulegu eignarhaldi fyrirtækja. Slíkar upplýsingar eru mjög mikilvægar þegar verið er að kanna krosseignatengsl og mögulega hagsmunaárekstra í atvinnulífinu.

Auk þess leggur frumvarpið til skyldur á hlutafélög að þau skrái atkvæðisrétt hluthafa. Þessar upplýsingar auðvelda bæði hluthöfum og utanaðkomandi aðilum að átta sig á valdahlutföllum á hluthafafundum.

Frumvarpið hefur verið gagnrýnt hér fyrir að ganga ekki nógu langt í að ná fram markmiðum jafnréttislaga. Ég er sammála hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um að það ætti að ganga lengra hvað varðar að kveða á um kynjahlutföll. Vil ég sem formaður viðskiptanefndar láta skoða kosti og galla þess að lagt verði til í nefndarálitinu að hlutafélög taki upp 40/60 kynjakvótann eins og gert er í jafnréttislögum varðandi stjórnir og ráð sem eru í heild eða að meiri hluta í eigu ríkisins og sveitarfélaga. Ég vil þó ekki gera lítið úr mikilvægi þess að skrá opinberlega kynjahlutföll og vil ég til að undirstrika það eða mikilvægi þess segja persónulega sögu af því hvernig það bar að þegar ég tók sæti í eina skiptið sem ég hef átt sæti í stjórn hlutafélags.

Það var þannig að hlutabréf viðkomandi fyrirtækis voru nýskráð í Kauphöll Íslands og eigendurnir gátu ekki hugsað sér að halda áfram að skrá stjórn sem samanstæði einungis af miðaldra karlmönnum. Því var leitað til mín með stjórnarsetu. Ég sat í þessari stjórn hlutafélagsins þar til að félagið var afskráð eða ekki lengur skráð opinberlega og þurfti þar af leiðandi ekki að gefa upp hverjir sætu í stjórninni. Þá þótti ekki lengur ástæða til að hafa margbreytileika í stjórninni eða konu þar á meðal, þannig að þessi stjórn er núna aftur einkynja. Opinber skráning tryggir ekki að mínu mati að það komi fleiri en eitt sýnishorn af kvenkyninu inn í stjórnina. Þar af leiðandi vil ég láta skoða kynjakvóta eða möguleikann á því að setja inn í nefndarálitið fyrirmæli um 40/60 kynjakvóta.

Virðulegi forseti. Ég vil sem formaður viðskiptanefndar auðvitað tryggja að um þetta frumvarp fari fram vönduð umræða.