138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 137. löggjafarþingi, þá 62. mál, en varð ekki afgreitt út úr viðskiptanefnd. Við meðferð nefndarinnar á málinu bárust umsagnir frá Hagstofu Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóði, Hagsmunasamtökum heimilanna, Viðskiptaráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu og VR. Síðar í máli mínu mun ég víkja að þeim umsögnum sem bárust frá þessum aðilum.

Verðtrygging hefur verið á inn- og útlánum á Íslandi frá því að hin svokölluðu Ólafslög voru sett árið 1979 og var þeim ætlað að koma í veg fyrir að sparifé almennings brynni upp í verðbólgu sem tröllreið hinum vestræna heimi á 8. og 9. áratugnum. Bent hefur verið á að þessa verðbólgu hefði mátt rekja til þess að Bandaríkin hófu að prenta peninga í gríð og erg til að lækka rekstrarhallann á ríkissjóði hjá sér í framhaldi af Víetnam-stríðinu og olíukreppunni. En á sama tíma og síðan í framhaldinu þegar verðbólga fór að lækka af miklum krafti í heiminum og það sama gerðist hér héldum við áfram að verðtryggja skuldbindingar á Íslandi.

Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur verið gagnrýnd harkalega og bent á að ósanngjarnt sé að fjármálastofnanir krefjist verðtryggingar breytilegra vaxta og veðs á jafnvel eina og sama láninu og velti þannig allri áhættu af lánveitingu á skuldarann. Gallar verðtryggingarinnar komu sannarlega í ljós við það mikla verðbólguskot sem varð á síðasta ári við hrun íslensks efnahagslífs. Höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar á rúmu ári um 20–25%. Hækkun höfuðstóls bættist þar við hraðvaxandi atvinnuleysi, minnkandi kaupmátt, hækkandi vöruverð og lækkandi fasteignaverð og jók þannig mjög byrðar íslensks almennings.

Í hinum vestræna heimi þekkist ekki viðlíka tenging lána við vísitölu og má einna helst finna svipaða stöðu í ríkjum eins og Brasilíu, Síle og Ísrael. Í skýrslu sem Tryggvi Þór Herbertsson vann sem forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir Landssamtök lífeyrissjóða árið 2004 kom fram að verðtrygging er almennt ekki notuð við lánveitingar lánastofnana til heimila í ríkjum OECD. Í OECD-ríkjum hefur verðtryggingin einskorðast við ríkisskuldabréf og þekkist hún í átta ríkjum OECD: Ástralíu, Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Íslandi, Kanada, Nýja-Sjálandi og Svíþjóð. Hlutfall útgáfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa er hins vegar langhæst hér á landi, um 86%, en 4–18% í þeim löndum sem ég nefndi hér áðan.

Hér á landi hafa verið tekin skref til að draga úr verðtryggingu, einkum á skuldbindingum til skemmri tíma. Meðal annars var gert óheimilt að verðtryggja styttri innlán en til þriggja ára og styttri útlán en til fimm ára. Áhrifin af þessum breytingum hafa hins vegar ekki verið sérstaklega mikil.

Ýmsir hafa svo sem talað um þetta, þar á meðal Einar Árnason, hagfræðingur BSRB, og sagt að þetta kallist að hafa belti og axlabönd fyrir þann sem lánar. Þetta fyrirkomulag hefur reynst lánardrottnum mjög vel. Þannig hafa lánveitendur ekki þurft að hafa sérstakar áhyggjur af verðbólgunni, hún hefur bara verið vandamál lántakenda þar til núna. Hins vegar hefur upp á síðkastið borið á verulegum efasemdum um að svona kerfi gangi til langframa, hvað þá eins og ástandið er um þessar mundir. Það er nefnilega ekki lengur endilega öruggt að lána á þennan máta. Þessir miklu efnahagsörðugleikar sem við erum að fást við hér gera það að verkum að fólk mun og er að gefast upp. Þegar áhvílandi skuldir vegna húsnæðis eru orðnar meiri en söluverðmæti og þar á ofan ekki einu sinni mögulegt að selja húsnæði, eins og við sjáum núna á fasteignamarkaði, tekjurnar minnka eða snarlækka vegna atvinnumissis gefast hreinlega margir upp. Það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist og gefa frekar einhvers staðar eftir þannig að fólk geti haldið í vonina. Við þessar aðstæður má líka hafa miklar efasemdir um að verðtrygging verndi eigendur sparifjár eins og til er ætlast.

Í skýrslunni fyrir Landssamtök lífeyrissjóða segir, með leyfi forseta:

„Tæplega þrír fjórðu hlutar verðtryggðra útlána til einstaklinga bera fasta vexti sem skýrist einkum af því að húsnæðislán Íbúðalánasjóðs, sem bera fasta vexti, eru um 60% af verðtryggðum útlánum einstaklinga. Verðtryggð lán til fyrirtækja skiptast hins vegar nokkurn veginn jafnt á milli fastvaxtalána og lána sem bera breytilega vexti. Almennt er viðskiptavinum ekki frjálst að velja á milli fastra og breytilegra vaxta.“

Eins og ég benti á áðan hefur samningsstaða skuldara og lánardrottna ekki verið jöfn og þeir hafa lítið frelsi til samninga. Rök á móti verðtryggingu, og þá sérstaklega lána, eru einna helst þau að áhættu vegna veðskulda og lánasamninga er komið á skuldarann. Skuldurum hefur reynst erfitt að gera fjárhagsáætlun vegna þessarar sjálfvirku hækkunar á höfuðstól lána, jafnvel vegna þátta sem Íslendingar sjálfir hafa haft lítil sem engin áhrif á, svo sem verðhækkana erlendis á eldsneyti. Verðtrygging dró einnig mjög úr áhrifum stýrivaxta að mínu mati sem eru helsta stýritæki Seðlabankans í baráttunni við verðbólguna. Mætti jafnvel halda því fram að það hafi verið andstætt hagsmunum lánastofnana að draga úr verðbólgu, einmitt vegna verðtryggingarinnar.

Það hefur líka verið gagnrýnt hvernig vísitala neysluverðs sem við byggjum verðtrygginguna á hefur verið reiknuð. Ég hef sjálf sagt í blaðagreinum og ræðum að þarna sé hugsanlega um mjög gallaða mælingu að ræða, sérstaklega í því ástandi sem við höfum upplifað hérna á síðustu 12–18 mánuðum. Vísitala neysluverðs eins og hún er reiknuð byggir á þriggja ára gömlum neyslugrunni að meðaltali og á síðasta ári þegar þetta mikla verðbólguskot varð byggðist hún á neyslu sem átti sér stað árin 2006, 2005 og 2004. Þarna er þá um að ræða ár þegar neyslugleði landsmanna náði hámarki. Það var ekki fyrr en í mars/apríl 2009 sem neyslumælingin fyrir árið 2007 kom inn í grunn Hagstofunnar og ekki fyrr en á vormánuðum 2010 munu birtast einhver áhrif af neyslunni eins og hún var í fyrrahaust, en það gerist þó frekar 2011 og 2012. Ég held að okkur geti öllum verið ljóst að neysla landsmanna hefur gjörbreyst frá því sem áður var og núverandi vísitölugrunnur er reistur á.

Á heimasíðu Hagstofunnar er einmitt farið í gegnum hvers konar skekkjur eru mögulegar í útreikningum á verðlagsvísitölunni. Það er talað um úrtaksskekkjur, mæliskekkjur, úrvinnsluskekkjur og aðferðaskekkjur, síðan er bent á skekkjur vegna gæðabreytinga, sem sagt breytinga á gæðum vöru og þjónustu. Þegar verðbreytingar eru metnar getur verðbólga verið of- eða vanmetin. Það eru líka eins og ég nefndi áðan skekkjur vegna svokallaðrar staðkvæmni ef innkaupavenjur heimila breytast mjög skarpt þannig að verslað er t.d. í meira mæli þar sem verð er lágt en úrtak verslana hélst óbreytt. Ég er hér ekki að gagnrýna það hvernig Hagstofan hefur unnið mælingar sínar, ég held að hún hafi einmitt lagt mikið á sig við það að tryggja að þetta mælitæki reynist eins vel og mögulegt er, en hún lenti, skilst mér á frétt sem ég las, t.d. í vandræðum með að mæla verðbreytingar á nýjum bílum. Það voru svo sem til nýir bílar í landinu, en salan á þeim hefur algjörlega hrunið þannig að þá fór Hagstofan að taka þá frekar inn verðbreytingar á notuðum bílum.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að hámarkshækkun á vísitölu neysluverðs á ári verði 4%. Þar með er ábyrgðinni af því að halda verðbólgu í skefjum og áhættunni við lántökuna skipt á milli lánveitanda og lántaka. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ríkissjóður og ríkisstofnanir á vegum ríkisins gefi ekki út verðtryggð ríkisskuldabréf nema í undantekningartilfellum og þá skal rökstyðja það sérstaklega. Mikilvægt er að ríkisvaldið sjálft taki frumkvæði í að draga úr notkun verðtryggingar í íslensku samfélagi og því er þessi viðbót lögð til. Í algjörum undantekningartilfellum væri þeim það heimilt en þá yrði að gera grein fyrir forsendum fyrir útgáfu þeirra opinberlega. Í 3. gr. frumvarpsins sem við lítum svo á að sé okkar innlegg í þá umræðu sem þarf að fara fram um það hvernig við getum afnumið verðtryggingu er lagt til að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að skipuð verði nefnd til að leita frekari leiða til að afnema sem fyrst verðtryggingu, þá varanlega. Þingmenn Samfylkingarinnar undir forustu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hafa áður lagt fram þingsályktunartillögu um að viðskiptaráðherra skipi nefnd til að leita leiða til að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga í áföngum. Nýmæli í þessu hins vegar er að í stað þess að Alþingi feli viðskiptaráðherra að skipa nefnd er nefndin skipuð af Alþingi. Viðskiptanefnd er falið að vinna frekar úr tillögum nefndarinnar og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar til að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga enn frekar en lagt er til í þessu frumvarpi. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi við samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Skulu þau einnig eiga við um samninga sem hafa orðið til fyrir gildistöku þeirra.

Eins og ég gat um í upphafi bárust viðskiptanefnd umsagnir frá nokkrum aðilum við umfjöllun hennar á 137. löggjafarþingi. Þær voru frá Hagstofu Íslands, Íbúðalánasjóði og Fjármálaeftirlitinu sem tóku ekki afstöðu til málsins. Umsagnir Hagsmunasamtaka heimilanna, Viðskiptaráðs Íslands og VR voru frá því að vera tiltölulega jákvæðar yfir í að vera mjög jákvæðar, en Landssamtök lífeyrissjóða lögðust eindregið gegn frumvarpinu í umsögn sinni.

Viðskiptaráð Íslands var tiltölulega jákvætt í umsögn sinni en benti á að betur mætti reifa afleiðingar frumvarpsins fyrir stóra markaðsaðila, svo sem lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð. Ráðið taldi því mikilvægt að stíga varlega til jarðar og nefnd, líkt og lögð er til í 3. gr. frumvarpsins, væri fyrsta skrefið í rétta átt til að draga úr verðbólgu og áhrifum hennar á fyrirtækin og heimilin í landinu.

VR fagnaði viðleitninni í frumvarpinu en taldi það ekki ganga nógu langt. Benti VR á að draga þyrfti úr vaxtavaxtaáhrifum verðtryggingar, svo sem með því að takmarka hve oft verðbætur á lán og sparifé reiknast á ársgrundvelli. Vænlegast taldi VR að hækkun/lækkun höfuðstóls yrði aðeins reiknuð á 12 mánaða fresti. Í umsögnum var talið að betra gæti einnig verið að setja þak á leyfilega raunávöxtunarkröfu og að verðtryggðar fjárskuldbindingar bæru fasta vexti. VR taldi einnig vænlegra til árangurs að takmarka möguleika einkaaðila til útgáfu á verðtryggðum skuldabréfum frekar en ríkissjóðs og ríkisstofnana. Um 3. gr. frumvarpsins benti VR á að æskilegt væri að setja tímatakmörk á starfstíma nefndarinnar og hvenær henni bæri að skila niðurstöðum og tillögum. Vegna þessara ábendinga voru einmitt gerðar breytingar á 3. gr. frumvarpsins.

Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna var lögð áhersla á að samhliða þaki á hámarkshækkun verðtryggingar á ársgrundvelli yrði einnig sett þak á nafnvexti verðtryggðra veðlána þar sem hætta væri á að lánveitendur mundu sækja sér tapaða ávöxtun í formi hækkaðra nafnvaxta. Samtökin lögðu einnig til að hámarkshækkunin yrði 4% 2009, 2010 og 2011 en færi síðan niður í 2,5% frá og með 2012. Með því yrðu send skýr skilaboð til lántakenda um að 4% hámarkið yrði aðeins fyrsta skref í því að afnema verðtryggingu lána.

Það komu ábendingar um að betur mætti reifa hugsanleg áhrif frumvarpsins á lífeyrissjóðina sem eru þessir stóru markaðsaðilar sem var talað um. 50–60% af eigum þeirra eru í verðtryggðum lánum og þar af um 5–15% í íbúðalánum sjóðfélaga. Skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru hins vegar í verðtryggðum greiðslum vegna örorku- eða ellilífeyris. Þetta skapar vissulega vanda sem bætist ofan á tap sjóðanna í ýmsum öðrum fjárfestingum nýverið.

Eins og ég hef áður farið í gegnum og við þekkjum öll er ekki hægt að halda áfram eins og ekkert hafi gerst. Ég nefndi hversu umdeildur útreikningur verðlagsvísitölunnar er og þessar miklu líkur á, eins og við framsóknarmenn höfum margrætt, minni greiðsluvilja og hættu á greiðslufalli lána. Það kallar á endurskoðun. Það getur náttúrlega ekki verið réttlætanlegt að verðtryggð lán verði eina haldreipið eða eina von lífeyrissjóðanna í þessum mjög svo breytta heimi sem við búum í þar sem nánast allar aðrar fjárfestingar hafa beðið ákveðið skipbrot.

Ég bendi jafnframt á, eins og kemur fram í áðurnefndri grein Einars Árnasonar, hagfræðings BSRB, að það er mjög algengt að íbúðalán í Danmörku beri í kringum 3,5% vexti án verðtryggingar og hámark á þessum vöxtum er oft í kringum 5%. Hann leggur áherslu á að það sé mjög mikilvægt að leita sátta í þjóðfélaginu og breyta áherslunum. Hann bendir líka á að þar sem verðtryggingin var hugsuð til þess að leysa ákveðinn trúverðugleikavanda sem við eigum við að fást varðandi krónuna leysist sá vandi ekki þótt Ísland gangi í Evrópusambandið. Það eitt dugar ekki, heldur þarf miklu meira til.

Í athugasemdunum sem ég minntist á í umsögn frá Landssamtökum lífeyrissjóða segir að 4% þakið á hámarkshækkun verðtryggingar á ársgrundvelli samkvæmt 2. gr. frumvarpsins mundi setja hugsanlegt markmið um langtímaraunávöxtun sjóðanna í uppnám ef verðbólga færi umfram nefnd 4% mörk. Þar með yrðu auknar líkur á að skerða þyrfti lífeyrisgreiðslur ef svo færi. Jafnframt yrði að skýra hvort þakið ætti aðeins við lánasamninga frá því að frumvarpið tæki gildi eða öll verðtryggð skuldabréf. Vísuðu landssamtökin til þess að slík ráðstöfun gæti hugsanlega gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um verndun eignarréttar og sjónarmiðum um afturvirkni laga.

Þrátt fyrir mjög margar áhugaverðar og góðar ábendingar frá umsagnaraðilum er frumvarpið flutt efnislega nánast óbreytt frá síðasta löggjafarþingi. Ekki gafst tækifæri til efnislegrar umfjöllunar um málið í viðskiptanefnd og því telja flutningsmenn eðlilegast að Alþingi fái tækifæri til að fjalla um og ræða tillögurnar í frumvarpinu og ábendingar umsagnaraðila í samhengi. Hins vegar gerum við athugasemd við ábendingar Landssamtaka lífeyrissjóða um gildistökugrein frumvarpsins og að ákvæði í frumvarpinu gangi gegn ákvæðum stjórnarskrár um verndun eignarréttar. Með sömu rökum mætti hugsanlega segja að mikil verðbólga og háar verðbætur gengju á eignarrétt lántakenda og brytu stjórnarskrá þegar eignarhlutur þeirra minnkar vegna mikillar verðbólgu og hækkunar verðtryggðra lána.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að það verði sameiginlegir hagsmunir, sameiginlegt markmið allra Íslendinga að hafa lága verðbólgu í landinu. Þannig ættu hagsmunir lífeyrissjóðanna og ríkisvaldsins að fara saman með hagsmunum íslenskra heimila og fyrirtækja um að berjast gegn verðbólgu, svo sem með því að draga úr fjárfestingum sínum þegar þannig stendur á.

Það er sannfæring mín og trú að svo hafi ekki verið undanfarin ár. Ef maður veltir aðeins fyrir sér hugtakinu verðtrygging er þetta náttúrlega spurning um að tryggja ákveðið verð, ákveðið verðmæti. Tryggingafræðin segja að tryggingar geti í sjálfu sér aukið áhættusækni hjá þeim sem eru tryggðir. Þetta höfum við t.d. séð í rannsóknum á innstæðutryggingum. Það er talað um að bankar séu hugsanlega áhættusæknari vegna innstæðutrygginga og að með þeim sé verið að umbuna frekar þeim sem eru mjög áhættusæknir en þeim sem eru íhaldssamir. Við getum líka tekið sem dæmi að við ætlum að tryggja 100% eða 110% allt sem gerist ef það verður jarðskjálfti — ætli fólk sé þá ekki líklegra til að byggja þar sem er hætta á jarðskjálfta en ella? Dæmi um þetta er líka að fólk virðist stundum vera óvarkárara með brunatryggingu gagnvart eldi og þetta tel ég að endurspeglist að vissu leyti í verðtryggingunni, við erum búin að vera með hana og hún átti að tryggja okkur gegn áhrifum verðbólgunnar, átti að tryggja spariféð, en skaðaði okkur á endanum vegna þess að það varð allt of mikil áhættusækni í kerfinu og það voru ekki sameiginlegir hagsmunir hjá öllum aðilum á markaði í að tryggja lága verðbólgu í landinu og litla þenslu.

Í grein í Fréttablaðinu fyrir nokkru skrifaði Michael Hudson hagfræðingur, með leyfi forseta:

„Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með ,,ódýrum peningum“. Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða. Ísland hefur snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánardrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.“

Ég held að það skipti máli að við íhugum aðeins hvað hann er að segja hér. Ég er ekkert að mæla með því að ríkisstjórnin fari í að prenta peninga og reyna að koma verðbólgunni af stað, en við horfum hins vegar fram á mikinn skuldavanda hjá íslensku þjóðarbúi og við getum ekki farið sömu leið, eins og ég nefndi hérna í upphafi ræðu minnar, og Bandaríkin gerðu á 7. og 8. áratugnum þegar þau prentuðu peninga til þess að aðstoða sig við viðskiptahallann vegna þess að við búum við verðtrygginguna. Hún skaðar okkur ef verðbólga fer af stað. Hins vegar þarf náttúrlega að finna á þessu jafnvægi. Við getum ekki skaðað sparifjáreigendur og við getum heldur ekki skaðað þá sem hafa tekið lánin þannig að við verðum að finna jafnvægi. Ég vona svo sannarlega að í meðförum viðskiptanefndar förum við í gegnum þessar og aðrar tillögur sem umsagnaraðilar hafa bent hérna á og jafnvel enn fleiri tillögur sem aðrir gætu komið með í þessa vinnu.

Það gladdi mig líka mjög á borgarafundi í Iðnó nýlega með hæstv. félagsmálaráðherra Árna Páli Árnasyni þegar hann tók mjög skýrt fram að hann vildi leita allra leiða til að afnema verðtrygginguna. Það sama tel ég hins vegar að hafi líka verið skoðað af hæstv. forsætisráðherra. Eitt af því sem hún gerði eftir hrunið var að setja á stofn nefnd sem m.a. Gylfi Arnbjörnsson og Þorkell Helgason sátu í til að leita leiða um hvernig væri hægt að aðstoða þau heimili og fyrirtæki sem hefðu orðið fyrir þessum miklu hækkunum á verðbótum í framhaldi af hruninu. Því miður fréttist lítið af niðurstöðum úr þeirri nefnd hvað varðar afnám verðtryggingar, hins vegar kom ný vísitala, svokölluð greiðslujöfnunarvísitala, út úr þeirri vinnu. Þar tel ég að hugmyndin sé raunar að skipta út einu gölluðu mælitæki fyrir annað og bætir raunar stöðuna ekki mikið.

Ég verð samt að segja að ég trúi því að hæstv. félagsmálaráðherra hafi meint að hann vildi leita allra leiða til að losa um verðtrygginguna. Ég vona sannarlega að það sama gildi um hæstv. forsætisráðherra og að við getum unnið þetta mál vel í viðskiptanefnd. Vonandi sjáum við þetta koma út úr nefndinni með nefndaráliti til 2. og 3. umr. og jafnvel afgreiðslu hér á þinginu.

Ég óska eftir að vísa málinu til viðskiptanefndar að lokinni umræðu í þingsal og vonast til góðrar og áhugaverðrar umræðu um þetta mikilvæga mál.